fimmtudagur, 20. nóvember 2014

búddistinn

Dóttir mín kvartar undan vinkonu...svona eins og gengur (samtalið fór nota bene fram á ensku af hálfu ungviðis en er hér þýtt):

Dóttir: Hún ber enga virðingu, hún sagði að pabbi minn væri "big giant púpú"

Mamman: Já ég skil, ég skil.

Dóttir: Já það er ekki virðing, er það nokkuð!

Mamman: Nei, það er það nú ekki.

Dóttir: Svo er hún ekki góður Búddisti!

Mamman: ....(orðlaus)

mánudagur, 25. ágúst 2014

ljóð eftir pabba í tilefni af 70 ára afmælinu hans.


stjarnskipti

mannleg samskipti
                           líkjast helst 
stífluðum pípulögnum
lögðum eftir 
                 babýlónsku stjarnspekikerfi
og ganga aðeins upp 
                              við túnglmyrkva

en því skyldi ég hætta mér 
                            á svo fjarlægar hættubrautir
fyrir mér stórsvig himalajafjalla 
                                            að spá í stjörnurnar

á heiðskírri jónsmessunótt
þegar morgunsólin veltir sér upp úr dögginni
 og brosið þitt leiftrar
                              um himinhvolfin

Geirlaugur Magnússon
Úr bókinni Tilmæli, 2005

miðvikudagur, 13. ágúst 2014

nýtt skólaár, frunsan og snúðtaglið


Það er að frétta að stúlkurnar eru komnar í jakkafötin því nýtt skólaár er hafið. Karólína sagðist vera bæði spennt en líka leið vegna þess að sumarfríið væri búið. Stúlkurnar voru afskaplega ánægðar með árangur sinn þetta sumarfrí, í kílómetrum sem ferðast var en einnig í ískílóum sem þær hefðu torgað. Ísold var sérstaklega ánægð með að hafa hitt alla þessa ættingja á ættarmótinu og metfjölda sundferða.
Ég hef slegið öll met mín eigin sem og Norðurlanda og Evrópumet í stærð frunsu...hún er svo stór að ég var lengi að átta mig á því hvað hér væri á ferðinni. Hún er meira að segja stærri en frunsan mín frá árinu 1996 sú varð til þess að Sigurður nokkur Árni, (myndlistamaður sem ég passaði fyrir í París nokkrum sinnum) hafði sérstaklega orð á því að hann hefði aldrei séð þvílíka stærðarinnar frunsu.
Spurningin er hvort frunsan muni vilja sækja um sjálfstæði eða jafnvel vilja gerast tuttugasta fylki Noregs, hvort sem raunin verður mun ég segja, farið hefur fé betra!
Arnar hins vegar elskhugi minn er að hugsa um að safna skeggi af meiri elju en undafarin ár og er jafnvel að spá í að leggja í snúðtaglið því ekki má hann vera síðri en hipsterafélagar hans á fróni. Hægt verður að fylgjast með þróun hárvöxts á þessari fréttaveitu.
En nú þarf ég að hafa samband við sekkjarpípukennarann og fara að vinna að þessum tugþúsundum mikilvægra verkefna sem bíða mín.

þriðjudagur, 29. júlí 2014

Í kringum landið

Við þutum í kringum landið á dögunum, jújú íslandið góða þökk sér tengdamóður sem lánaði okkur bíl.  Úr aftursætinu heyrðust kunnugleg stef frá ört vaxandi afkvæmum okkar.
Mamma, hvenær erum við þar? (enskusletta)
Hvenær komum við?
Þessar spurningar heyrðust strax við rauðavatn en þá áttum við sirkabát tíu tíma keyrslu í Berufjörð.
Þar sem við þutum suðurlandið á numero uno heyrist í yngra barninu þegar hún sér folöld á túni.
"Sjá þetta litla barn"
Eftir því sem leið á keyrsluna og búið að reyna á langlundargeðið heyrist í hinni eldri 
hvað er mikið eftir
eftir svona korter tuttugu mínútur
hvað er það mikið í sekúndum
ég veit það ekki
uuuuu bíddu..... uuu
900
einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átt...  (telur barnið hátt og snjallt okkur foreldrum til mikillrar gleði)    ...átta hundruð nítíu og níu, níu hundruð. 
Mamma, við erum ekki komin! Þú laugst.

mánudagur, 17. mars 2014

Heilagur Patrekur (PIPIOGPUPU 9 ÁRA!)

ég vaknaði upp við þá martröð að hafa ekki fengið neinar afmæliskveðjur á Facebook, þorði nánast ekki að kíkja, kíkti samt og sá að ég hafði fengið einhverjar, hjúkk! Fór þá að velta mér upp úr því hvað ég væri orðin óheyrilega gömul og ekki nándar nærri heimsfrægð. Fékk svo kaffibollann upp í rúm og þá gat ég þó huggað mig við að eina gráa hárið mitt sem er núna orðið eins árs eða tveggja hafði ekkert fjölgað sér áður en ég ákvað að aflita hárið á mér og lita það bleikt...þó ég sé að sjálfsögðu allt of gömul fyrir slík uppátæki. Svo heyrði ég mömmu í Brussel og tilveran varð aðeins bærilegri. Ég klæddi mig í sailor kjólinn, setti bleika hárið upp í hnút dreif mig á Skoska næturhimninum í furðulegri rigningu sem var ekki beint rigning heldur láréttur blautur vindur, hjólaði meðfram kanalinum og beint á huggulegasta kaffihús veraldar, þar sem himnaríkisskonsan beið eftir mér. Þar komst ég að því að pipiogpupu fallegasta blogg í heimi er orðið níu ára! trúiði þessu, finnst það eitthvað svo verulega miðaldra að eiga níu ára blogg en gæti engan veginn hugsað mér að eyða því út af dýrmætum kommentum pabba. Elsku pabba sakna átakanlega mikið á afmælinu mínu (ég veit það hljómar eigingjarnt og eitthvað en maður var nú einu sinni einkabarn) Pabbi hefði nefnilega hringt í mig og sagt mér söguna af því þegar ég fæddist, þegar hringt var á fæðingarlæknirinn til hjákonunar til að taka mig með keisara, hvernig vorið kom þennan dag fyrir 38 árum á miðvikudegi í Aix-en-Provence og hvernig froskarnir og krybburnar sungu einstaklega fagurlega þá nóttina. Svo hefði pabbi spurt mig hvað mig langaði í og gefið mér akkurat það og einhverjar bækur að auki. En hvað sagði Fía Sól, ef maður saknaði einskis þá hefði maður aldrei elskað eða eitthvað svoleiðis, gott mottó.
Það er nú meira hvað maður er mikill forréttindapjakkur, því nú bíða mín frekari veisluhöld með elskhuganum og afkvæmunum þannig nei ég get ekki kvartað! ég held ég verði nú að eyða einhverri orku í að huga að raunverulegum vandamálum heimsins.