vitleysingar


Ég man þegar ég var lítil, á mínu reglubundna labbi á laugaveginum með pabba. Annað hvort á leið í kál og kenningu þar sem ég naut nú oft bókakaupaæðis pabba, af mokka eftir kakódrykkju já eða á leið í skákhúsið...ó guð hvað ég hataði skákhúsið...pabbi þurfti að skoða fáránlega mörg skákblöð sem hann endaði auðvitað á því að kaupa svo ég skyldi ekki hvers vegna hann var að hanga þarna, og ekki þoldi ég Grammið betur...þar þurfti pabbi að skoða endalausar blúsplötur, spjalla við hinn og þennan...En hvað um það alltaf þegar pabbi hitti einhvern, kíkti fullorðna manneskjan niður til mín og sagði..."Rosalega hefur þú stækkað" eða "Mikið hefur hún Móheiður stækkað" Eða "Svakalega ertu orðin stór" ...Og skemmst frá því að segja velti ég því fyrir mér hvers vegna fullorðið fólk hefði ekkert fjölbreyttara að segja við ágætlega klára aðeins minni manneskju. Yfirleitt þekkti ég fólkið lítið eða mundi ekki hver var en oftast bætti fullorðna fólkið við "síðast varstu bara svona lítil (viðeigandi handapat-misraunsætt hjá hverjum á einum)",
Þvílíkur vitleysingur hugsaði ég stundum...
Jæja svo varð ég að fullorðnum einstaklingi...og ég eignaðist minni einstaklinga. Og ég stend sjálfa mig að því síknt og heilagt að vera segja við börn út um allt já eða á feisbúkk..."vá hvað hún/hann X hefur stækkað" "Jemundur minn borðar þú ekkert annað en lýsi, þvílík lengja sem X er orðin(n)" Og "Mamma mía, ég ætlaði ekki að þekkja þig þú ert orðin(n) svo stór!" ....og klykkt út með "Þú varst nú bara svona stór síðast þegar ég sá þig : mjög óraunsætt handapat sem er nær grænni baun en ungabarni".
Af hverju verður maður vitlausari með tímanum. Ég segi nú bara eins og litlu gáfumennin sem búa með mér "þetta er algjört svindl"!

Ummæli

Vinsælar færslur