þriðjudagur, 25. september 2012

sinn er siður...

Jú hér kemur ýmislegt spánskt/skosk fyrir sjónir...vorum boðin í Tea einn daginn eftir skóla og fengum indæliskvöldverð. Þar komust við líka að því að fólk er ekkert mikið að kyssa bless, hvað þá karlmaður kyssi annan á báðar kinnar (sem væri argasta ókurteisi að gera ekki í Frakklandi) en gerir breta frekar vandræðalega.
Umferðin er auðvitað fáránleg, þeir eru öfugu meginn í bílunum og á götunni, sem þýðir að maður horfir alltaf ósjálfrátt í öfuga átt og oft hefur legið við slysi á okkur fjórum. Þeir eru mjög lítið með sebrabrautir, notast við umferðavörð við skólann...(dvergvaxin kona sem talar viðstöðulaust og ég skil ekki orð af því sem hún segir) og mér finnst fólk keyra frekar hratt. Hins vegar er hjólað á götunni á hjólreiðaakreinum og bílstjórar bara frekar tillitsamir við hjólreiðafólk (ný reynsla!!).
Te er drukkið með mjólk og maður er viðundur ef maður gerir það ekki og þeir eru endalaust að tala um  þetta blessaða Tea...hvort sem þeir eru að tala um eftirmiðdagste, kvöldverð, kvöldte...ég bara átta mig ekki á því. Maður þakkar strætóbílstjóranum, ég man aldrei hvort ég eigi að gera það fyrir ferð eða eftir svo ég geri bæði. Svo er það kurteisin...hvað er þetta með Íslendinga en þeir eru fullkomnir barbarar í samanburði við Skota. Hér er endalaust verið að þakka manni fyrir, biðjast afsökunar og segja please. Hvað varðar sundlaugamenningu eða kyndingu húsa eru Skotar hins vegar nokkrum ljóshundruðum ára á eftir okkur heima... en það verður víst ekki á allt kosið.

þriðjudagur, 11. september 2012

venjulegur mánudagur

Rútínan er fylgifiskur sem erfitt er að losna við á hversu ævintýralegum slóðum sem maður er, er það ekki? Mánudagar eru í það minnsta alltaf mánudagar og víðast hvar í þessum vestræna miðstéttarheimi. En það sem gerist við flutninga að rútínan verður samt öðruvísi en rútína engu að síður.
Við vöknuðum, Karólína er yfirleitt fyrst til að vakna. Hún heimtar mat og segist ekki vilja fara í skólann...þó ekki grátandi eins og undanfarnar vikur, þetta er allt að koma. Síðan eru þær systur klæddar eða klæða sig sjálfar í skólabúningana, greiddar, húsfaðirinn undirbýr morgunmatinn fyrir þær sem í þetta skiptið var ristað brauð og tekur nesti til f. skólann.
Síðan göngum við leiðandi sitt hvora stúlkuna.
Í dag fór Karólína í fyrsta sinn inn í skólann með Frú Börk án þess að gráta!
Skólatímann þeirra notum við foreldrarnir til að vinna að okkar mikilvægu verkefnum, stelpurnar hafa mismikla trú á því að við séum að gera nokkuð gáfulegt og finnst að þær ættu að geta hangið með okkur allan daginn.
Nú svo er Karólína sótt í skólann korter í þrjú, kennarinn fylgir krökkunum út fyrir dyr þar sem allir foreldrarnir standa og bíða-(Frístundaheimili er greinilega ekki málið hér) Í dag var rigning svo við biðum inn í skólanum eftir Ísold sem er búin  korter yfir þrjú...
Furðulegt system finnst mér sem gerir ráð fyrir að foreldrar séu búnir snemma í vinnunni og hafi tíma til að hanga á skólalóðinni í hálftíma.
Í dag kíktum við foreldrarnir aðeins á Valtý í Bláberjahæð fyrir pick up vegna rigningar (Walter á Blueberry Hill)sem er kaffihús hverfisins, afskaplega breskur og barngóður náungi sem á það til að bresta í söng. Þar drukkum við te.
Þegar heim var komið var annar tetími og ávaxtaát (stelpurnar hafa fengið ansi mikinn sykur undanfarið strax eftir skóla svo nú erum við að taka okkur á)
Svo var farið í ýmsar tilfæringar, tiltektir, heimalærdóm... Arnar fór svo út að hlaupa á meðan ég fór að taka til við að elda mánudagssúpuna skv. matseðli vikunnar. Í dag bjó ég til misosúpu í fyrsta skipti. Arnari fannst hún góð, Karólína kláraði sína en Ísold fannst hún vond. Tókst upp mikið drama þar sem eldra barnið var með leiðinlega stæla við matarborðið og dugði það dramakast alveg fram að háttatíma og tannburstun, þá tók hin við með einhvers konar mömmusýki þegar pabbinn var að fara lesa ( segið mér að við séum ekki ein í heiminum í slíkum málum?) Svo það endaði með því eftir þónokkuð vol að mamman las bókina sem Karólína hafði fengið að láni á skólabókasafninu, sú stutta sofnaði þegar ég var hálfnuð með aðra blaðsíðu (sem gerist iðulega). Restin af kvöldinu fór í smá skæp og tölvunethangs af minni hálfu.
Nú svo er komið að síðasta punktinum í rútínu dagsins og byrjað það strax annað kvöldið okkar hér í borg. Te klukkan ellefu, ég fæ myntute en Arnar Scottish blend með mjólk ("Cuppa"). Fyrstu vikurnar var þetta ríkúpptíminn og planleggingar gerðar fyrir næsta dag í bjúrókratíuverkefnum. Nú er þetta háheilagur afslappelsistími...
bonne nuit

fimmtudagur, 6. september 2012

Scottish weather...(sagt með ímynduðum skoskum hreim)

Veðrið, já uppáhalds umræðuefnið mitt er mér til mikillrar ánægju jafn umhugsunarvert hér í Skotlandi og heima á Íslandi...sem dæmi má nefna að ég er búin að tala um veðrið við nánast alla þá skosku foreldra sem ég hef rætt við. Ein konan virðist hafa jafn ástríðufullan áhuga og ég og kemur sérstaklega til að ræða það við mig nánast daglega þegar við erum að sækja unganna.
En hvað gerir það svona spennandi? Jú þessi síbreytileiki sem við könnumst nú heldur betur við. Veðrið hér hefur reyndar leikið við okkur allan ágúst og töluðu foreldrarnir um það að það væri búið  að vera nokkuð sérstakt. Þegar ég var farin að hafa áhyggjur af því að vera sísveitt með pírð augun vegna mikillrar sólar, birtist gamallkunnur vinur: vindurinn! Þar sem hann er enn nokkuð hlýr get ég ekki beinlínis kallað hann rok. Mikið höfðum við verið vöruð við rigningunni en hún ekki látið sjá sig þar til loks um daginn rétt í þann mund sem við sóttum börnin kom demba, þvílík demba að ég hef sjaldan séð annað eins, þrumur, eldingar, haglél og hvort ef ekki brennisteinn líka...sum sé þetta margumtalaða skoska fárviðri. Ég fór að skilja hvers vegna Skotar framleiða stígvél í lange baner og plön voru gerð um að versla mér slík. Nú þegar vindurinn er aðeins farinn að kólna er ég farin að hafa áhyggjur af því hvernig ég eigi eftir að höndla þetta skoska hitasystem...á fróni hafði ég vanið mig á að skrúfa ofnanna á fullt um leið og fyrsta laufið féll (ef ekki fyrr) og hafa glugga alltaf opna...kannski ekki málið hér!