nýársbarnið og annum nobili 2011

litla ljúf er 7 ára í dag(2. jan), okkur þykir öllum mikið til koma enda sérstaklega upprifin af afmælum. Ísold byrjaði í skóla síðasta haust sem okkur þótti líka svakalega merkilegur áfangi. 'Eg sem hafði svarið þess eið að koma ekki nálægt skólastofnun aftur eftir að hafa útskrifast sem meistari á árinu, þurfti aldeilis að sætta mig við það að nú væri skólagangan byrjuð á nýjan leik og nú sem foreldri...Jú ég viðurkenni að það hvarflaði að mér að finna mér skútu og sigla með börn og buru (hvað er bura?) um heimsins höf. Í stað þess að skilja barnið eftir á stofnun, en nei eitt það sem ég hef lært í skóla sem utan að skólinn verður ekki umflúinn.
Ísold hefur lært margt og mikið á þessari fyrstu önn sinni í hinum virðulega austurbæjarskóla og mun meira en að lesa og reikna; hún hefur lært að eignast vini á örskotsstundu, vera huguð, standa með sér...hún hefur mikið verið að velta fyrir sér kynhneigð, justin bieber, rómantík og stefnumótum. Áður en systurnar byrjuðu í skólanum höfðu þær auðvitað lært heilmargt sérstaklega í sumarfríinu okkar í Berlín, þar lærðu þær t.d. heilmargt um ólík samgöngutæki, um mismuninn á afríska fílnum og þeim indverska, um tilvist jógafuglsins, hvernig maður biður um gosvatn á þýðversku og svo má lengi telja.
Unglingaveikin hefur ekki farið framhjá okkur og við höfum komist að því að frumburðurinn er einstaklega raddsterk, reyndar svo mikið að yngra barnið hefur kvartað mikið undan eyrnaverk sem endaði svo með læknisskoðun. Læknirinn sá staðfesti að þar væri engin bólga aðeins viðkvæmni fyrir unglingaveiki, litlan sættist á aukaskammt af lýsismeðali. Á jólasýningunni sáum við svo loks litla barnið sem er búið að stækka helling á þessari fyrstu önn á sviðinu í bíósalnum á austó syngja nokkur lög og það voru að vonum stoltir foreldrar sem leiddu dætur sínar í kringum  jólatréð í íþróttasalnum.
En önninni var ekki lokið þegar lífið kenndi okkur öllum mikilvægustu lexíuna eða þá endanlegustu. Olla langaamma/amma mín í holtó kvaddi okkur nefnilega í byrjun desember þá kom að því að segja litlum hjörtum frá leiðarenda...
bestu óskir á nýju ári!

Ummæli

Nafnlaus sagði…
einmitt! amma rós
Nafnlaus sagði…
Gaman að lesa þetta, alltaf jafn vel skrifað hjá þér. amma Bryndís
Móa sagði…
dankesjön ;)

Vinsælar færslur