miðvikudagur, 16. nóvember 2011

ættfræðiáhuginn

Karólína sver sig í föðurætt mína og sýnir mikinn ættfræðiáhuga þessa daganna...ég er spurð daglega hvað foreldrar mínir heiti og þá auðvitað fullu nafni, nú svo er spurt hvað foreldrar þeirra heiti og jafnvel foreldrar þeirra. Þetta þykir mér all merkileg hegðun ég man vel eftir því þegar móðir mín spurði mig litla hvað foreldrar vina minna hétu eða hvað þeir gerðu, mér fannst þetta vera hámark hnýsninar og þessar upplýsingar ómerkilegri en nokkuð annað. Það kom svo auðvitað á daginn að þetta væri daglegt brauð á fróni en í suður Frakklandi var ekki mikið verið að spyrja um ættir og slíkt. Karólína spyr mig hins vegar aftur og aftur sömu spurningana og finnst stundum skrítið að tengja saman. Til dæmis á hún tvær langömmur sem henni þykir skrítið að séu mömmur hvað þá mömmur afa og ömmu, nú svo um daginn var hún orðin soldið rugluð á þessum ættfræðirannsóknum sínum og spurði mig hvort ég væri mamma Geirlaugs pabba míns. Í næstu setningu var hún búin að nefna pabba sinn Arnar Karólínuson (sem mér finnst bara nokkuð huggulegt nafn). Karólína veit auðvitað lengra en nef hennar nær og veit að börnin eiga foreldrana alveg eins og foreldrar börnin. En við þetta má bæta að Karólína er nú nýlega farin að nefna sig Arnarsdóttir því lengi vel vildi hún frekar heita Einarsdóttir eftir vinkonu sinni. Merkileg þessi ættfræði

fimmtudagur, 3. nóvember 2011

samræður við yngra barn mitt á kaffihúsi

K: Mamma, vinkona mín á leikskólanum hefur séð Bítlana
M: já er það
K: hefur þú séð þá.
M: já í sjónvarpinu og svoleiðis
K: hefurðu ekki séð þá á tónleikum
M: ekki beint
K: sjáðu manninn hann er með grænt og svart hár
M: Já vá, flott
K: Er hann í Bítlunum?
M: Nei hann er aðeins of ungur...

föstudagur, 28. október 2011

leiðindablogg

þannig hef ég hugsað til þessa bloggs undanfarið, mér finnst stundum svo sjúklega leiðinlegt að blogga. Svo er hægt að svala þessari duldu athyglissýki á feisbúkk með sniðugum setningum og ef þær eru ekki sniðugar þá hverfa þær nógu fljótt...
EN svo er það þannig að ég vil alls ekki eyða þessu helvíti...pipiogpupu verður stórveldi einhvern tíman og þangað til þá er eins gott að passa plássið á Blogspotinu...

Ps. á næstunni mun birtast hér, almenn úttekt á raunverulegum sem óraunverulegum málefnum t.d.:
draumar (nýir og úr backcatalogue)
Endurbætt stjörnuspá mbl....(STjörnuspá á ekki að vera móralíserandi)
kannski skólasögur frá úttauguðum meistara og huguðum fyrstubekkingi
og svo myndir
svo þú, þú sem lest þetta rugl ekki gefast upp!

miðvikudagur, 7. september 2011

Magnaðar sumarfrísmyndir komnar á alnetið!!!!


Ahhhhh-Indiana karó, originally uploaded by pipiogpupu.

Fríið okkar var ævintýralegt og skemmtilegt...og væri alveg til í að vera í sumarfrí árið um kring eftir að hafa skoðað myndirnar...andvarp!

föstudagur, 12. ágúst 2011

Spielplatz Mekka!

Já við erum líkast til öll fjögur sammála um það að í Berlín eru margir rólóvellir og ekki nóg með það heldur eru þeir margir hverjir frábærlega vel hannaðir og sniðugir...það sem er svo líka magnað er að enginn þeirra er eins. Allir hafa sinn sjarma, sinn stíl, sitt þema! Þannig teljum við Arnar að við séum búin að skapa nýja tegund af túrisma sem felst í rólóvallagöngutúrum...við höfum í það minnsta eitt mörgum dögum okkar að undaförnu í Berlín, á gangi milli rólóvalla. Allt frá sjóræningjaróló, línulangsokkróló, klifurróló til artí-dalíróló á Auguststrasse. En þegar ég segi rólóvöllur...verður minn íslenski hugi ekkert sérlega uppveðraður- vegna þess að á íslandi, felst rólóvöllur í rólu, rennibraut, sandkassa og jafnvel vegasalti ...og búið. Enn grátlegar er sú staðreynd að áður en ég fór reyndi ég lengi að ná í borgaryfirvöld til þess að spyrja þá hvers vegna væri búið að taka róluna og rennibrautina af Bollagöturóló og fékk þau svör eftir langa bið að tækin hefðu verið tekin vegna þess þau væru ónýt(sem er ekki rétt) og ekkert kæmi í staðinn vegna fjárskorts!
Hér er Spielplatz allt annað mál þeir hafa margir hverjir það sameiginlegt að vera stór hringlaga sandkassi með leiktækjum hvers konar og misjöfnum. Það má nefna klifurgrind með rennibraut, köngulóarróla og margar gerðir af rólum, stórum rólum, lítil innbyggð trampólín, síðan eru oft skip, kastalar alls kyns virki sem hægt er að klifra á klifurveggjum, renna sér niður rennibrautir, súlur eða reipi....það er endalaust hægt að telja. Þeir eiga allir það sameiginlegt að vera hugvitsamir, þroskandi fyrir hreifiþroska og hugmyndaflug barna. En svo er það eitt við rólóana í Berlín, að það er hugsað fyrir foreldrana líka! Það eru kaffistaðir nálægt eða á rólóunum og foreldrar hef ég tekið eftir koma mikið rétt eftir leikskóla, hitta félaga sína í baráttunni spjalla, sitja róleg á þartil gerðum bekkjum eða hugvitsamlegum sætum meðan börnin leika áhyggjulaus og enn betra leika við börnin sín í skemmtilegu umhverfi. Af öllum rólóunum sem við höfum heimsótt í Mitte, Prenslauer Berg, Kreuzberg og Neukölln stendur einn alveg sérstaklega upp úr og sá sýndi Tobbi vinur okkar hér. Hann er raunar eins og úr stórkostlegri Indiana jones bíómynd, Skip og kastali, klifurveggir, töfrateppi, lítil flugvél á gormum, sjóræningjastytta og jógakennarastytta(eins og ísold nefndi hana) Algerlega magnað og reyndar kalla þjóðverjarnir þetta Línulangsokkleikvöll! Skemmtilegast í heimi fyrir skotturnar tvær var þó að leika við Tobba á róló enda er þar mikill snillingur á ferð:)

laugardagur, 6. ágúst 2011

Nächstes Blog

Næsta blogg og næsta og næsta og næsta...það er takki eða hvað það nú heitir efst á öllum bloggum sem heitir: Næsta blogg og þegar maður ýtir á fer maður samstundis á nýtt og ókunnugt blogg...bloggin eru um flest og ekki neitt, myndir af börnum, íþróttaafrek, stjórnmálatuð, búseta erlendis...öll hafa þau það sammerkt að vera leiðinleg og óáhugaverð, Já ég veit og samt held ég þessu áfram. En það er vegna þess að mér finnst mitt blogg ekki vera leiðinlegt...og minna nánustu! Er ég sjálfselskari en annað fólk... nei það held ég ekki. Fólk hefur mest áhuga á sjálfu sér? Maður er manns gaman, hefur maður gaman að því að njósna um annað fólk...eða þannig líður mér oftast þegar ég skoða ókunnug blogg og myndaalbúm einhverra úti í bæ! Hvers vegna í fjáranum er fólk endalaust að tjá sig um jafn ómerkileg og tíðindalítil málefni eins má sjá af fyrri færslum hér og á næstu bloggum...Keine anung.
Aufstiegen bitte-
Hér sit ég með reggí, þrumur og eldingar í eyrum, sólbökuð eftir heitan dag í Berlín sem fór í megatchill og er bara nokkuð ánægð með sumarfríið! verði ykkur (2-3 lesendum) að góðu og þrýstið á Nächstes Blog»

sunnudagur, 31. júlí 2011

Risaeðlur í rigningunni

Berlín er yndisleg borg, það verður bara að segjast...Ég veit varla hvar skal byrja.  Stelpurnar okkar eru skemmtilegir ferðafélagar og opnar fyrir þessari ofgnótt nýrra hluta... Á þessum tæpum tveimur vikum hafa þær ferðast með lestum og "sporðvögnum" á hverjum degi. Frumburðurinn hefur labbað daga langa í stórborginni án þess að kvarta... sem kemur móðurinni kannski hvað mest á óvart miðað við hversu bílvædd við erum heima. Þær hafa borðað, falafel á Súdönskum stað, víetnamskan, mexíkanst og auðvitað currywurst sem er nú orðið uppáhald Ísoldar. Leikvöllunum höfum við gert góð skil enda nóg af skemmtilegum og ólíkum rólóum. Einn daginn þar sem við vorum á gangi í Kreuzberg vorum við bókstaflega höstluð af velviljuðum þjóðverja á  hjólaleikvöll...þar sem börn fá hjálm og hjól að láni...fríkeypis og geta hjólað að vild á litlum brautum með litlum umferðarmerkjum og ljósum....ég sæi þetta í anda gerast á fróni, þar myndi líkast til kosta morðfjár inn. Síðustu dagar hafa verið votir svo ekki sé meira sagt, rignt stanslaust í marga sólarhringa en einhvern veginn fær það ekkert sérlega á okkur, á einum slíkum degi skoðuðum við hið frábæra naturkundemuseum þar sem hægt er að finna stærstu samsettu risaeðlur í Evrópu og ýmislegt fróðlegt, stelpurnar voru gjörsamlega að springa úr fróðleiksfýsn og við þurftum að hafa okkur öll við til þess að útskýra heiminn frá tímum risaeðla og til þessa dags. Það sem ég er kannski ánægðust með er að strax á fyrstu dögunum fóru stelpurnar að stinga sjálfar upp á því að fara á kaffihús til að fá sér Croissant (sagt með frönskum hreim) finnst eins og mér sé að takast að skapa litla heimsborgara, og það er bara Prima!

fimmtudagur, 21. júlí 2011

sumar í Berlín

Familían er komin til útlanda...jeij-börnin voru ofurspennt fyrir ferðinni sérstaklega flugferðinni og dýragarðinum, þau voru farin að telja niður í júní. Þegar við fórum loks upp á flugvöll ætlaði auðvitað allt um koll að keyra í tilhlökkun og spenningi. Sú yngri hafði aðeins flogið einu sinni áður en sem ungabarn, sú eldri flaug helling fyrir 2 ára svo minningarnar voru ekki margar um þetta stórkostlega fyrirbæri sem flugvél eða flugferð er. Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir spenntu barni að í ferðalögum er maður alltaf að bíða. "are we there yet" er engin klisja, fyrst förum við í flugvél og þá þarf að bíða eftir því að fara upp í flugvélina, síðan þarf að bíða eftir hún takist á loft...síðan þarf auðvitað að sitja í einhverja klukkutíma þar til hún lendir loksins og þá tekur biðin eftir töskunum við, svo er beðið eftir lest og svo framvegis. Allt þetta reynist yngra barni mínu erfitt. "hvenær förum við í flugvélina?" ómaði sum sé allan tíman upp á velli, Síðan fórum við upp í vél þá heyrðist "hvenær fer flugvélin af stað?" loksins þegar flugvélin fór í loftið var barnið sofnað og missti því af teikoffinu...strax og hún vatnaði fór að heyrast "hvenær komum við" á 5 sekúndna fresti þar til við lentum og þá spyr Karólína "förum við núna í húsdýragarðinn?" En og aftur ullum við barninu vonbrigðum með því að útskýra fyrir barninu að fyrst yrðum við aðeins að koma okkur fyrir í Berlín áður en við færum að heimsækja berlínsku húsdýrin í Zoo. Eldri systirin kom inn í landið með opin augu, ekki var liðin mínúta á nýrri grundu þegar hún kallar á okkur og segir  "Sjáiði þennan ofn, ótrúlega flottur" Síðan bentu þær báðar á ruslatunnurnar "mamma, sjáðu þessar flottu ruslatunnur"... Tekið eftir sem flestum smáatriðum en þó sagði Ísold fljótlega, "Berlín er eiginlega eins og Reykjavík!" Hvað sem afkvæmin hafa um þetta allt að segja er hér mikið úrval rólóvalla sem eru nokkrum skörum ofar en heima að gæðum!

föstudagur, 1. júlí 2011

dýfði mér í sjóinn

Í sjónum með hinum fiskunum er best að vera! Allra meina bót, gott við tannapínupúkanum sem hertók líf mitt þessa vikunna og beinlínis lagði mig í rúmið. Sjórinn virkar því sem hið besta verkjalyf og lundarlyfta. Þetta verður sjósundssumarið mikla hjá pipiogpupu og familí. Í Berlín verðum við að láta okkur nægja vötnin með hinum þýsku striplingunum:)-Annars ætlaði ég nú bara að þvaðra um veðrið eins og venjulega. Mikið hefur verið kvartað undan kulda og vosbúð, mófuglar sumir hverjir fóru aftur á suðlægari slóðir, kartöfluvöxturinn er þremur vikum á eftir áætlun...en höfum við ekki bara verið dekruð af gróðurhúsaáhrifunum. Í það minnsta man ég vel eftir mér lítillri þá þótti mér einmitt þetta svala en ferska íslenska sumarveður yndislegt. amma mín í Frakklandi sagði alltaf þegar ég kom heim á haustin "mikið hafðir þú það gott í sumar, ég var gjörsamlega að kafna hérna(í Aix)". Kannski er þetta síðbúna sumar góðar fréttir fyrir jöklana okkar ... og vonandi koma svo mófuglarnir bara næsta sumar og dvelja við.

fimmtudagur, 23. júní 2011

fáninn


fáninn, originally uploaded by pipiogpupu.

fullt fullt af myndum, vorið, trúðaútskriftarveislur, 17. júní vetrarhörkur á Hjalteyri og já bara endalaust stuð í Norðurmýri og víðar ;)

þriðjudagur, 7. júní 2011

Vampírur og ást

nei ekki þjáist ég að síþreytu en er hins vegar illa haldin af blóðleysi og já fleiri kvillum. Þessu komst ég að eftir ævintýralega nótt á bráðamóttöku, þar sem ég var stungin í bak og fyrir, maginn á mér speglaður og ég fastaði í 12 tíma...Ég veit nú að ég væri ekki girnileg bráð fyrir vampírur eða blóðsugur hvers konar. Ég veit að flestir læknar líta út eins og Ken (í Barbie) og það getur verið mjög vandræðalegt þegar á að gera asnalegar rannsóknir á manni. Ég farin að þekkja nokkur orðatiltæki í bransanum, ein hjúkkan kallaði mig t.d. "þurra" eftir að hafa reynt að taka blóðprufur á nokkrum mismunandi stöðum, einnig fékk ég að heyra hljóðið í æðunum þegar blóðið er sogið út af miklum móð....óhugnanlegt ég veit. Já en ég tók þessu að sjálfsögðu með mesta hetjuskap...eða ekki. Ég grét úr mér augun og vorkenndi mér ómælt fyrir að vera föst á sjúkrastofu með 7 öðrum, þ.á.m einum sem hraut hástöfum alla nóttina. Svo saknaði ég þeirra ómælt þeirra sem eru vön að verma rekkju mína að næturlagi... En svo slapp ég eftir óhetjulega grátstafi og kveinkan enda var ég boðin í sveitabrúðkaup sem er líkast til það fegursta í heimi hér, ást við iðagrænar hlíðar og fjöllin blá...Blóðleysið varð síðan hin besta afsökun til þess að teiga rauðvínið duglega;)

fimmtudagur, 2. júní 2011

þþþþþreeyyytttt ahhhhhgeisp

Sannast sagna er eins og ég hafi náð mér í einhvers konar síþreytusjúkdóm eftir ma-skilin...ég er síþreytt, sígeispandi-espresso er teigað eins og ég veit ekki hvað en samt get ég vart haldið augunum opnum. Þetta er bagalegt ástand ég hef nefnilega nóg að gera annað en að sofa á mínu græna. Ég átti t.d. að eyða deginum með uppáhalds kvenfólkinu mínu í dag.  Eftir kaffihús, smá róló og ræður Málfríðar Tungufoss var ég alveg búin á því og lognaðist út af hjá mömmu í eftirmiðdaginn...þetta er farið að minna á unglingsárin! Já ég sver það það hlýtur barasta að vera einhver lægð yfir, sveimérþá!
EN hvað um það Í sumar er margt á prjónunum, sumarfyrirheit:
læra búa til Límónaði og drekka af því endalaust
ferðast, tjalda og helst fljúga um loftin blá
Læra að búa til steiktan fisk í raspi
prjóna og hekla som ingen er morgendagen
Já svo er leslistinn fyrir sumarið orðinn ansi langur....
Já svo má ekki gleyma matjurtargarði og garðinum, úff mér fallast næstum hendur. Best að fara í rúmiÐ :o ---gggggggggggggggeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiisssssssssssssssssssssssssssssP

þriðjudagur, 17. maí 2011

furðulegt ferðalag

Ísold fór í sína fyrstu útskriftarferð í dag og þegar ég sótti hana var hún einni tönn fátækari! þessi ferð til fullorðinsára er ein furðulegasta ferð sem maður fer og samt svo eðlileg. Ég man vel eftir því hvernig mér leið þar sem ég sat í eldhúsinu hjá mamie Rose(franskri ömmu minni),  beit í baguette-samloku og skyndilega var ég einni tönn fátækari. Ég man eftir gleðisvip mamie Rose þegar hún leit í holuna sem var ekki svo ósvipaður gleðisvipnum mínum þegar ég sá holuna í munni dóttur minnar. Hvað er svona gleðilegt við það að missa tönn...hver er þessi ótútskýranlega gleði við að fylgjast með barni dafna og þroskast,  ég veit það ekki. Allt saman er þetta auðvitað partur af programmet, jafn eðlilegt og sólarupprásin á morgni hverjum. Litla barnið verður að stórri manneskju smátt og smátt sem þarf að takast á við lífið svo upp á eigin spýtur... svo merkilegt  en já sandt er livet! Krílína karólína barbafín prinsibessa fór svo í guided tour um Grænuborg í dag, þar ætlar hún að nema næsta vetur við Sólskinsdeild...mamman missti næstum út úr sér að sér þætti það ekki óeðlilegt nafn á deild sem fengi slíkan sólargeisla til sín sem hún Karó mín er. Hún er afar opin fyrir þessum fyrirhuguðu breytingum og leist vel á húsakynnin:)
Arnar kom líka úr ferðalagi í dag með allar sínar tennur til baka sem betur fer en kannski aðeins meira skegg. Það er merkilegt hvað lítið ferðalag hvort sem það er til Akranes, grænuborgar eða New york gerir heimilislífið ríkara af alls kyns sögum, brosum og ....svo ekki sé minnst á ilmvötnum, converse og barbapapafígúrum;)

mánudagur, 16. maí 2011

mmammmammammamamamamaamamamamamamamamamammmma

Já ég er búin að skila ma-verkefni...það tók þó svo mikið á taugar og bakvöðva að ég er enn að jafna mig!
Síðan ég skilaði hef ég verið að þvo þvott, laga til og sortera... af því það er svo gaman.
Búin að rekast á furðulegustu hluti, gamlar ritgerðir úr menntó, hárflétta af mér síðan ég var fjórtán ára og undarlegar ljósmyndir.

miðvikudagur, 4. maí 2011

sófaskipti

Já ég veit þetta tekur enda! Sófaskiptiprógrammið okkar heldur áfram...eigum aðeins eftir að skrá okkur í AFS. Því við vorum að fá okkur nýja sófa! og athugið í fleirtölu! Að meðal tali skiptum við um sófa einu sinni á ári. Og nú var bara komið að því, Sherlock eins og hann var kallaður-fenginn í upp í skammadal var eiginlega ónýtur... og það áður en hann kom hingað. Það tók því ekki einu sinni að banna stelpunnum að hoppa í honum því  hann var gagnlegastur sem trampolín. Svo það var eiginlega bara spurning hvenær við myndum gefast upp á þeim garmi og ganga í sófamálinn eins og fullorðið fólk. Klein var líka orðinn hálf óásjálegur, eftir mikið klifur og apakattanna minna á honum. Já, svo undirrituð og ritstjóri þessarar fréttasíðu, tók sig til og kíktu á auglýsingasíðu sem kennir sig við börn! Þar fann ég auglýsingu á tveimur sófum, einum tveggja sæta og öðrum þriggja, já það er völlur á okkur! Sófarnir eru ljósir tausófar og eru eins og klipptir út úr íbúð í úthverfunum en eru engu að síður úr vesturbænum, takk fyrir. Og við erum komin í fullorðinsdeildina, garmarnir eru liðin tíð. Nýju glæsilegu sófarnir okkar hafa auðvitað fengið nöfn (eins og allir okkar sófar hingað til innan geira leynilögreglusagna eða höfunda sem hentar þeirra útliti eða stíl!) og þeir heita daradadadadadadadadadadadad papabíng:  ARNALDUR og YRSA!
ps. raunverulegar myndir af þeim skötuhjúum koma svo síðar ;)

miðvikudagur, 27. apríl 2011

miðvikudagur, 6. apríl 2011

ævintýramamma vill verða mamamma

það getur verið ævintýri að vera mamma og sérstaklega þegar maður á ævintýralegar dætur. Mamma verður að hafa hæfileika Kofi Annan til þess að sætta deilur. Bílpróf er næsta nauðsynlegt þegar þarf að keyra stúlkur í afmæli, ballet, heimsóknir...og já leikskólann þ.e. vinnuna þeirra stelpna (eins og afi segir alltaf). Nú svo þarf maður að geta brugðið sér í hin ýmsu hlutverk; hákarlinn í sundlauginni, ævintýramömmu á róló, hjálparmamman á balletsýningunni, huggarinn, stranga mamman þegar á að koma stúlkum í rúmið, kokkamamman sem á helst að snara grjónagraut úr erminni og helst á broti úr sekúndu. síðast en ekki síst hrósmamman, já við mannfólkið líka ævintýrafólkið þurfum hvatningu, bros, faðm til þess að líða þokkalega í hjartavöðvanum. Síst og ekkert endilega síðast er samviskubitsmamman sem hugsar, er ég nóg með þeim? fá þær nóg af þessu eða hinu? eru þær ofdekraðar? eru þær með hreina vettlinga eða ónei ég gleymdi að þvo pollafötin um helgina? Og svo stundum vill kona vera frímamma...má það? Stundum þarf mamma að sitja með sjálfri sér og ná að lesa heila bók í einum rikk, skreppa til NY eða fá smá frí til að klára ma-ritgerð...og verða ma-mamma. Ef ég verð ma-mamma þá verður mamamamamamamamapartý!

þriðjudagur, 5. apríl 2011

mánudagur, 28. mars 2011

Grace á toi Gigi

Hérna í gamla daga horfði ég ansi mikið á þessar teiknimyndir og nú er ég farin að horfa á Gigi á ný með stelpunum mínum. Mamma kom með heilan kassa af þessum yndislegheitum frá parís. Stelpurnar kalla hana sísí og skilja ekkert í frönskunni hennar en sjónarspilið nægir alveg. Ég fer í nostalgíutrans og finnst ég nánast ganga í barndóm.  Ég gerði mér auðvitað engan veginn grein fyrir því á sínum tíma að þetta væri japanskt fannst þetta jafn franskt og flanið...

föstudagur, 25. mars 2011

síðasti í afmælisviku

Já tók mér það bessaleyfi að lengja afmælisvikuna að vild...það er svona þegar maður er á leið á Bessastaði! Þegar ég verð forseti þá lofa ég almennum skemmtanahöldum allan marsmánuð enda megum alveg við því með þessa svikulu veðurguði. En ég fór, sá og sigraði Newyork, fór næstum úr hálslið við að horfa upp á allar þessar byggingar, borðaði á diner eins og Beauvoir. Hitti fjölmargt fólk sumt þekkti ég, kannaðist við en flest þekkti ég ekki baun enda búa margir þarna vesturfrá. Yndislegar mótökur fengum við hjá Röggu, Curver og Hrafnkatli og. pabbi hefði verið ánægður með mig þarna í pólska hverfinu, við skoðuðum og böðuðum okkur í alsnægtum stórborgarinnar. Það er einhvern veginn dásamlegt að brjóta upp hversdaginn, kynnast útlöndunum og lífinu þar. Koma svo heim til baunanna sinna, fá sér flatköku með hindberjasultu og já! Njú jork er æði:). Held upp á þennan síðasta dag í afmælisviku með pomp og pragt.

miðvikudagur, 16. mars 2011

þriðji í afmælisviku-skyndiindí

Er að mestu komin yfir aldurskrísu já og svo þurfti ég heldur betur að stíga í óttann varðandi veðurhræðslu mína því ég byrjaði á indíánasundsnámskeiði í gær og það var óveður að sjálfsögðu, mikið er hressandi að synda í stormi! já magnað við Edda vorum auðvitað unglömbin á staðnum, þar fór aldurskrísan. nú svo synti ég þarna indíánasundið (eins og frakkar kalla það) af miklum móð, ég segi nú ekki að ég geti synt alla leiðina til Ameríku en ég vonast til að verða flugsynd eftir þetta. Ég segi það enn og aftur
-----------sund er hamingja----------------
hef svo sem engu við þetta að bæta nema, mikið hlakkar mig til afmælis míns; JIBBÍ

þriðjudagur, 15. mars 2011

aldurinn færist yfir, annar í afmælisviku!

mynd af mér í fornöld!!!
ég, móa, á sum sé afmæli í vikunni og veðrið lýsir ágætlega sálarástandi mínu....ég kvíði því allt í einu hræðilega mikið að eldast og nálgast þennan miðaldur hræðilega hratt og hvað hef ég afrekað? Mig dreymir martraðir, er komin með kvíðahnút í magan á stærð við bökunarkartöflu og guð forði mér frá því að líta í spegil. ohhhhhhhmen sem sagt þetta verður leiðinlegasta bloggfærsla ársins! Það verður þó að viðurkennast að tveim litlum skottum hér á heimilinu ferst óskaplega vel úr hendi að gleðja aldrað hjarta mitt. Sú yngri vindur sér upp að mér á ólíklegustu stundum t.d. þegar ég stend kófsveitt yfir skúringarfötunni eða þar sem ég sit í rólegheitunum á postulínsskálinni og segir "mamma, þú ert svo falleg"...hin eldri vill alls ekki trúa því að ég sé degi eldri en 25...hversu oft sem ég reyni að leiðrétta hana, hum! Svona er maður nú hégómlegur og sjálfselskur og það þegar heimurinn er á heljarþröm.
(næsta færsla verður tileinkuð heimsendaótta og rúllustigafóbíu minni...so stay tuned for more skandinavian morbidness!)

mánudagur, 14. mars 2011

Afmælisvikan er hafin!

já það er að koma að þessu, Heilagur Patrekur-já og ég get ekki beðið...ég hlakka svo til eins og hún söng einhver barnasöngkonan. Verst að á þetta skyggir miklar hamfarir og hryllilegheit ... og á það bætist að tunglið nálgast jörðina aðeins of mikið og með því er spáð fleiri hamförum-jesús pétur segi ég, hvert er þessi heimur að fara. Það er ekki fyrir minn vestræna huga að hugsa þessar hugsanir til enda. Reyndar er svo komið að ég er orðin enn veðurhræddari og með aldrinum hef ég einnig orðið lofthræddari...flughræddari og ég veit ekki hvað og hvað! Einhvern veginn heldur maður áfram, keyrir um á bensínhák, kaupir föt saumuð af börnum í þrælavinnu, þrífur með einhverjum viðbjóði...og hvað geri ég, borga stundum þúsundkall í söfnun, fer með flöskur og pappír í endurvinnsluna, horfi á fréttir með þjáningarsvip, les hörmungarfréttir og deili þeim á facebook og já búið! það er eins og hvert vestræna skref mitt kosti aðra manneskju út í heimi miklu meira. 'O ég er gjörsamlega þjökuð að vestrænu samviskubiti...nú get ég varla andað af vestrænukvíða (í honum felst að ég vorkenni mest sjálfri mér fyrir að vera af hvítri millistétt í hinum vestræna heimi og þess vegna getur ekkert verið jafn ömurlegt og t.d. í Norður kóreu.) Æ já! hressandi ekki satt það sem aldrei er sagt...við höfum það nú bara of gott hérna í kreppulandi og já ég hlakka enn til afmælisins míns...

fimmtudagur, 10. mars 2011

sjálfsvorkun, heimsendapest og veðrið!

Hvar er vorið eru bambarnir að segja með svardimmum bambaaugunum sínum.
Jeij,  nú verður sko skrifaður pistill mánaðarins um Uppáhalds uppáhellingar umræðuefni vina minna sem reyndar lesa aldrei þetta blogg... Og vá þau eru sko að missa af miklu ha! Í fyrsta lagi vorkenni ég sjálfri mér mjög mikið fyrir að hafa verið lasin allann undanfarinn mánuð, hósta eins og nítjándualdarberklasjúklingur, þessu fylgir iðagrænar horslummur, heiladauði, ofneysla verkjalyfja og síðast en ekki síst sjálfsvorkun...ekki misskilja mig (þú þarna ósýnilegi lesandi) ég vil ekki þína vorkun eða nokkurs annars en mér finnst ágætt einstaka sinnum að liggja í fleti eigin sjálfsvorkunar...af því það er svo jákvætt og skapandi. Já veðrið það sem ég get þvaðrað um þetta asnalega veður. Nei ég hef ekkert á móti snjó, frosti og det hele í Nóv, des, jan, feb...en í Mars er ég búin með kuldakvótann minn fyrir þennan vetur. Nú vil ég sjá blómstrandi kirsuberjatré, lauka kíkja upp úr jörðinni og glaða smáfugla...Hvað á það að þýða að demba á mann tonn af snjó, helfrost og hroðbjóð og það rétt fyrir afmæli mitt! Nei það er ekki í boði!!! En svona fyrir utan öll þessi hörmulegheit þá hef ég varla efni á því að væla þar sem ég á afmæli í næstu viku!!!!!!!!!!!!!!YESSS og ég get boðið mig fram til forseta!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!ÍHAAA, OG ÉG ER AÐ FARA TIL NEF JORK!

miðvikudagur, 9. mars 2011

mánudagur, 21. febrúar 2011

veikindi og ástarkonudagar

Flensan kom á auðarstrætið, arnar byrjaði og varð hryllilega veikur, síðan vorum við tvær mæðgur sem fylgdum í humátt. Mér tókst að verða múkkveik með miklu drama. Læknar vildu engan veginn lina þjáningar vorar svo að heimilislífið varð mikið til lamað. Mamma tók stelpurnar yfir nótt á meðan við hjónin vorum meðvitundarlaus, tók þvott og þreif... já ástandið var hræðilegt. Valentínusardagurinn minn var undirlagður svo það fór lítið fyrir hjartalaga súkkulaðimolum. Arnar tók svo restina af pestinni með sér til Osló á meðan við reyndum að jafna okkur heimafyrir, bökuðum myntugræna stjörnuköku fyrir afmælisbarnið sem gaf konu sinni stórfenglegt ilmvatn og bók:)! Næst á dagskrá kvennabústaðarferð! JúBBÍ!!

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Arnar í tölvunni í útlöndum

Fullt af myndum komnar á flickrið aðallega af okkur Arnari ... að sjálfsögðu, djók. en skemmtilegar myndir frá desember, utanlandsferð, afmæli, aðventu...Geggjað spennandi!

föstudagur, 4. febrúar 2011

hátíð nálgast!

Upp er að renna ein uppáhalds hátíðin mín en líka ein sú hátíð sem landar mínir elska að hata! Aðeins tíu dagar...á þessu heimili verður sett upp hjartaskór út í glugga og vonast eftir smáræði frá englum Valentínusar:).
Þessir kaldrifjuðu ástlausu grey sem búa hérna upp á einhverju ókennilegu skeri norður í hafi telja sér trú um að það sé ónatíonalískt, kapítalískt eða upprunalega amerísk markaðsbrella  að halda upp á dag ástarinnar! Þetta fólk vill bara sinn gamla góða bónda og konudag og fíníto. Þvílík fásinna því ástin er það fegursta í heimi hér, því Arístóteles gamli vildi meina að ástin sé primus motor alls og vegna þess að án ástar væru fæst okkar hér. Þetta fólk með steinhjörtun bendi ég á að um gamla trúarhátíð er að ræða...en það mætti segja það sama um jólin t.d.  Heilagur Valentínus er uppáhalds heilagi gaurinn minn(á eftir Patreki eins og gefur að skilja). Ekkert finnst mér fegurra en að tjá ást sína hvort sem er á pappahjarta eða með gróðurhúsaræktuðum rósum, hvort sem er handa heitelskuðum lífsfélaga eða bara einhverjum öðrum sem á pláss í hjartanu manns.
Já og svo er valentínusarsnjórinn kominn...júbbí!!!

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Bjartsýnismaðurinn breytir vandamálum í tækifæri. Svartsýnismaðurinn gerir tækifærin að vandamálum

ENgar áhyggjur, ég ætla ekki að breytast í einhverja Pollýönnu...En hins vegar hef ég ákveðið að breyta væntingum mínum til veðurs hér á landi. Já blessuð gróðurhúsaáhrifin! Því það er ekki á eina bókina lært en ég eins og fleiri landsmenn get ekki hætt að viðra skoðanir mínar á því að veðrið eigi að vera öðruvísi en það er. Þegar það er tchernóbíl frost og vindur vil ég fá hlýrra veður en þegar er hlýrra finnst mér dimmt og grátt, allt ómögulegt og ég er aldrei ánægð. Hvar er snjórinn spyr ég og er skiljanlega svartsýnni en ella vegna þessa dumbungs! En í dag ætla ég að snúa þessu við og í hvert skipti sem veðrið er einhvern veginn ekki í stíl við þankagang eða hugmyndir mínar um veðurfar á norðurhjara ætla ég að reyna líta á það allt öðruvísi...þ.e. jákvætt--því það er jú hugarfarið sem skiptir máli! Er það ekki?

föstudagur, 28. janúar 2011

dagurinn

það er merkilega hressandi að hafa dagsbirtu á daginn. Í gær tókst ég næstum á loft tvisvar sinnum ég veit ekki hvort það var dagsbirtunni að þakka eða fantasíukúrsinum sem ég er í upp íhí. Ég er reyndar ílla svikin ef ég læri ekki að fljúga í þeim kúrsi, vera í endalausu teboði eða eignast töfrahring...Síðustu daga hef ég reyndar aðallega verið að fantasera um gríska eyju, skærblátt haf og sól.
Af afkvæmum er margt að segja eins og venjulega, stóra stýrið er á einhvers konar unglingaskeiði...við vonum að hún taki það bara út núna og sleppi þessari síðari gelgju. Litla stýrið veit núna allt í heiminum og geiminum eins og systir hennar svo vill hún helst taka þátt í því að ala upp eldri systur sína sem er ekki auðvitað alls ekki vinsælt. Um síðustu helgi slógu þær met í því að hlæja og gráta til skiptis.

miðvikudagur, 26. janúar 2011

::::Dauðagildran Snorrabraut:::::

Norðurmýri þann 26. Janúar 2011


Opið bréf til Hverfisráðs Hlíða og til Stefáns A. Finnssonar deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar og Karls Sigurðssonar formanns umhverfis- og samgönguráðs.

Norðurmýri er hverfið mitt, þar hef ég búið með einhverjum hléum frá unglingsaldri. Eins og er alkunna er hverfið mitt svolítið eins og fallega gróin umferðareyja á milli nokkurra stórra gatna, Miklabrautin og Snorrabrautin þar stærstar. Skipulag þessara gatna og þá sérstaklega Snorrabrautar hefur lítið breyst samfara breyttum aðstæðum og umferð. Nú nýlega varð dauðaslys á Snorrabraut og eftir það hefur umræða í fjölmiðlum aðeins aukist um ástandið við þessa götu, bendi ég sérstaklega á greinar Ryan Parteka í Grapevine nú nýverið.

Þessa götu keyri ég sjálf næstum daglega og eða fer yfir gangandi. Hver sem hefur reynt að fara yfir Snorrabraut á grænu ljósi veit að það er ekki hægt, ljósið er það stutt hvað þá sé maður með eitt barn á hjóli og annað í kerru (þetta á einnig við ljósin sem eru á Snorrabraut til móts við Flókagötu). Barnið mitt byrjar í Austurbæjarskóla í haust og satt best að segja óar mér við þessu ástandi. Svörin sem fengust úr Fréttablaðinu frá Stefáni Agnari Finnssyni, deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar um lengd ljósa á Snorrabraut þótti mér og öðrum íbúum hverfisins snautleg. Ég trúi því ekki að ástandið geti talist eðlilegt þegar svona slys verða, þegar starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla segjast óttast á degi hverjum um öryggi barna í þeirra umsjá þegar farið er yfir þessa götu og enn fremur þegar fólk er frekar tilbúið til þess að flytja en að búa hérna í annars fremur friðsælu hverfi.

Flestir nágrannar mínir, foreldrar, starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla og já margir fleiri eru uggandi um þetta öryggisleysi og spyrja sig jafnframt hver forgangsröðunin sé. Eiga gangandi vegfarendur ekki að ganga fyrir eða verður bíllinn enn einu sinni ofan á. Sjálf ólst ég upp erlendis og það við hraðbraut en þar voru ráðstafanir gerðar með hliðsjón af því að þetta væri hraðbraut og það var alls ekki eins hættulegt eins og þar sem ég bý í dag. En Snorrabrautin er einhvern veginn óskilgreint millistig milli hraðbrautar og götu. Hún hefur ekki þann umferðarþunga sem hraðbrautir hafa en þeim mun hættulegri umferð. Nú er ég ekki sérfræðingur í skipulagi en hver sá sem þekkir þessa götu veit að:

Á Snorrabraut er of hár hámarkshraði, það eru of stutt ljós, of fáar göngubrautir og það þarf að athuga skipulag þessarar götu í ljósi þess að hún er í íbúahverfi og skólahverfi. Einnig veit ég til þess að skrifuð hafi verið Mastersritgerð um skipulag Snorrabrautar við HR svo ekki ætti að vanta menntað fólk til þess að gera eitthvað í þessu. Ég vona að það þurfi ekki fleiri slys eins og varð fyrir stuttu til þess að eitthvað verði að gert!

Bestu kveðjur

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Norðurmýrarbúi, Mastersnemi í þýðingarfræði og móðir tveggja ungra vegfarenda.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

sepalausa móa

ég hefi losnað við þrjá fæðingarbletti...nei ekki merkilegt. jú það held ég nú! Húðlæknirinn vildi kalla þá sepa og ég sem hafði haft verulegar áhyggjur af þessu litlu brúnu viðhengjum mínum hefði átt að anda rólegar. Læknirinn rannsakaði þá með logsuðugleraugunum sínum og sagði þá meinlausa sepa! Það var ótrúlega þungu fargi af mér létt þarna en samt bauðst hann til þess að taka nokkra og þar af einn sem hefur verið á augabrún minni um ómuna tíð. Tveir voru á hálsinum mínum, stelpurnar kölluðu þá hlaupabólurnar sínar og höfðu þann sið að fikta í þeim þegar við kúrðum. Læknirinn gerði nú mest lítið úr þessari aðgerð-en mér varð mest hugsað til eins fyrsta heimspeki tímans míns. Þegar Róbert Haraldson spurði hvort ef hann myndi losna við vörtu af tánni væri hann þá sami maðurinn, væri vartan hluti af honum og þar fram eftir götunum/vörtunum...gleymspekin. Þegar aðgerðin hófst fór ég að skilja logsuðugleraugun-fyrst var stungið nál í skytturnar þrjár...og síðan hafist handa við að brenna þá bókstaflega af mér hljóðið var eins og í aggressívri árásarflugu, brunalykt í loftinu...engin sársauki fylgdi þeim þremur. En skyndilega fer hann að brenna mig í kringum einn fæðingarblettinn og kom þá í ljós að einn sepinn hafði átt nokkur sepabörn sem tók því ekki að deyfa! Mymen það var sárt, úff- en svo sem ekki jafn sárt og að fæða barn. Nú finnst mér ég fremur nakin í andlitinu...finn meira að segja fyrir söknuði. Án þess að gera mér grein fyrir því var ég vön að vera endalaust að fikta í þessum sepa á augabrúninni oft þegar ég var að spá og spekúlera. Þá strauk ég eftir augabrúninni, staðnæmdist aðeins við sepann góða. Þetta veit ég vegna þess að síðan ég missti hann rek ég mig á það að vera strjúka augabrúninni og bregða í brún þegar ég finn aðeins sárið undir fingurgómnum-Er sepalausa móa, ég eða er ég önnur og ennfremur ætti sepalausa móa að fá sér seppa?

þriðjudagur, 11. janúar 2011

áramótaheitin...

Já áramótaheitin eru bara nokkuð mörg og kannski vegna þess að ég tók heit síðasta árs og framlengdi þau þar sem þónokkur voru óefnd! En samt hef ég fulla trú á þessu fyrirbæri, óskir til þess að gera eitthvað, láta sér líða betur eða vera á einhvern hátt aðeins betri getur ekki annað en verið jákvætt:)
Best of síðasta ár:

Besta platan: Sóley
Besta bókin: Jónas Svafár (heildarútgáfa) mjög falleg bók!
Besta bloggið: pipiogpupu....djók
Besta nýja lúkkið á bloggi: Tinnublogg og já pipiogpupu (ekki djók)
Fyndnasta nýja bloggið: pi...nei ok, tískubloggið
Skemmtilegustu, sætustu og krúttlegustu börnin: Ísold, karólína....já og svo öll hin börnin sem við þekkjum og koma fast á hæla þeirra.
Frábærustu vinirnir: þið vitið hver þið eruð...takk fyrir að vera þið (og lesa bloggið mitt)
Yndislegustu ættingjarnir: Já þið sem lesið þetta blogg og hinir líka-þið eruð yfirleitt frábær...
Mesta afrekið: synda í Atlanshafinu...nokkrum sinnum í sumar, það er geggjað.
Já annars er þetta best of form ekkert alveg að gera sig hjá mér ég verð bara brjálaður egóisti og guð minn góður það er náttúrulega alveg hræðilegt að hrósa fólki hvað þá börnum sínum ef marka má orð Margrétar Pálu í útvarpinu í dag!

Nýjárskveðja M.

sunnudagur, 9. janúar 2011

Haltu þér fast!

Hér á fróni er alltaf eitthvað veður og svo þegar það er hræðilega vont veður köllum við það óveður. Á ekki-veðursdögum gerist svolítið séríslenskt. Skyndilega er eins og jörðin undir manni sé ekkert sérlega traust, vindhviðurnar slíkar að maður þarf að halda sér fast og það í sjálfan sig. Í útvarpinu í vikunni var talað um að það hefði verið tvöfaldur fellibylshraði á hviðum í einhverjum firðinum! Hér þykir þetta varla tiltökumál, sjaldan talað um fellibyli...mest varað við hlutir fjúki og geri óskunda. Við vini og ættingja segir maður haltu þér fast, en það sagði vinkona mín einmitt við mig í þann mund sem hún flaug á hús og ég reyndi eftir fremsta megna að halda mér fastri á íslenskri grundu með því að halda í sjálfa mig. Þetta er auðvitað stórkostlega merkilegt orðatiltæki og á þeim örfáu tungum öðrum sem ég þekki til er aldrei talað um þetta-maður heldur sér í eitthvað í mesta lagi. Eftir að hafa búið hér þriðjung úr ævi hef ég séð margt takast á flug annað en flugvélar, eitt sinn sá ég stöðumælavörð fljúga upp í loft og pompa svo niður en þá reyndar vegna hálku og með engri pragt, börn, eldri konu og marga fleiri. Vona að ég takist á meira andlegt flug á þessu nýja ári og  ætlunin að blogga sem aldrei fyrr!!

mánudagur, 3. janúar 2011

Ísold 6 ára, 2. janúar 2011!


Þetta eru mögnuð sex ár sem við höfum lifað saman við og Ísold, mér finnst eins og hún hafi fæðst í gær-eins og nýbökuðum foreldrum sæmir þá fannst manni eins og enginn hefði gengið í gegnum jafn einstaka reynslu og við þegar við eignuðumst litla trjáfroskinn okkar. Það var yndislegt að sjá augu pabba ljóma þegar hann sá Ísold fyrst, hrifningin var algjör-hún slær þér jafnvel við sagði pabbi, mikið þótti mér vænt um það:)
Litla sunnudagsbarnið mitt er mikil dama, hefur mikinn áhuga á prinsessum, ballet og bleiku, já og það þrátt fyrir að eiga femínista fyrir móður! Sniðuga og skemmtilega stelpan mín vakir og vaknar seint, hermir eftir röddum eins og pabbinn sinn (já og er mjög lík pabba sínum að öllu öðru leyti). Þegar hún leikur nornina í mjallhvíti verðum við öll þrjú skíthrædd. En Hvað um það sex ára aldurinn virðist vera mjög mikilvægur í hugum barna, í kvöld fór Ísold að sofa með ballettöskuna með sér upp í rúm og spurði mig hvort hún færi ekki í skólann og balletskólann á morgun...og hvenær losna tennurnar eiginlega?Allt á að gerast strax! Ekki síðar en í gær.