mánudagur, 20. desember 2010

Karólína 4 ára 19. des

Þessi litla dama varð fjögurra ára í gær, hún er að mati móður sinnar eitt fyndnasta barn sem fæðst hefur fyrir utan að vera krúttlegust og skemmtilegust. Hún hefur ákveðnar skoðanir og veit hvað hún vill, t.d. þykist hún heita Karólína Einarsdóttir...það hefur ekkert með föður hennar að gera eða að henni mislíki Thoroddsen-nafnið, hún vill bara heita eins og vinkona sín á leikskólanum. Litla Karólína er með sama stríðnissvip og afi hennar Geirlaugur, strípihneigð föður síns og fýlugjörn eins og móðirin! (þvílík blanda)
Merkileg er sjálfskoðunin sem maður gengur í gegnum sem foreldri, maður hrósar sér af því að barnið hafi sömu galla og maður sjálfur eða kosti og í þeirra fari eru þau mun krúttlegri og ásættanlegri!
En Daman var ánægð með daginn, veisluna, diskóeyjukökuna og pakkana. Mest ánægð var hún með að vera afmælisstelpa. Eftir afmælið var að venju farið í jólatrésleiðangur og eitt slíkt keypt upp á Landakotshæð sem er sérlega lítið og pent. Það stendur nú skreytt til óbóta í stofunni.

föstudagur, 17. desember 2010

jólajólajóla HVAÐ!

Stundum er svo mikið jóla á íslandi að það fer með mann, það eru jólabækur, jólamatur, jólanammi, jóla hitt og jóla þetta...hins vegar er jólaveðrið yfirleitt vitlaust og engan veginn í stíl við yfirdrifin áhuga landsmanna að skeyta orðinu jóla- á undan hverju sem er!
Jólamóa er ekki í yfirdrifnu jólaskapi, þarf að skrifa og jólaskrifa jólaritgerð í jólaþjóðar-bókhlöðunni og fær því lítið jólafrí...og finnst það reyndar ekkert svo jólaslæmt. jólabless

fimmtudagur, 16. desember 2010

strætóeltingur

Ísold tók þátt í því að skreyta strætó fyrir jólin með leikskólanum sínum-Sólborg. Það er hægt að finna myndina hennar á heimasíðu strætó og svo auðvitað á strætó-Ísold og hennar félagar skreyttu strætó 166- nú ætla ég að fara keyra um alla borg og sjá þennan óendanlega fagra strætó. Annars sagði  ég stelpunum mínum frá því þegar ég var sótt af kópavogsstrætó á stelluróló einu sinni-þær voru impóneraðar svo ekki sé meira sagt. Hvort það var Ikarusinn eða Leylandinn veit ég ekki en mikið var nú kópavogsstrætó alltaf flottur!

þriðjudagur, 7. desember 2010

Stólatangó

Okkur áskotnuðust nokkrir stólar í vor nú svo var ég að kaupa einn grænan hægindastól í góða hirðinum um daginn en við erum sum sé nokkuð vel sett með stóla.(engar áhyggjur ekkert af þessu er svona designdrasl) Það sem mér finnst algerlega dásamlegt að þetta ástand er eiginmanni mínum mjög hugleikið fyrst sagði hann "þetta er eins og að búa í húsgagnabúð", stundum þusar hann yfir því að þurfa færa til stól í hvert skipti sem hann vill komast eitthvert. Stundum er hann jákvæður og segir þá "það er sama hvar maður er í íbúðinni það er alls staðar hægt að setjast". Hann talar að sjálfsögðu mest um þetta ástand á meðan hann skúrar, já hann skúrar! ég er reyndar búinn að grátbiðja hann um að við fáum aðkeypta hjálp á meðan ég er að klára mastersritgerðina-en nei hann vill heldur gera öll heimilisstörfin sjálfur. Í kvöld sagði hann "þetta er eins og að búa í bíósal-það eru stólar ALLS staðar". Um daginn hélt hann smá vinafögnuð og þá sá hann auðvitað ljósið, nefnilega, allir fengu sæti.

mánudagur, 6. desember 2010

frankensteinbreiðstrætið

Gatan mín gengur venjulegast undir nafninu Auðarstræti-þar eru mörg hávaxin og fögur tré, húsin öll nokkuð svipuð og allflest steinuð gráu grjóti, á sumrin er gatan svo græn að Írland bliknar í samanburði. En nú er gatan fremur grá og það dökkgrá-ég kvarta ekki gulu skórnir mínir skína bara betur á þessum gráa undirtón. Hins vegar getur verið ansi draugalegt í götunni okkar ekki vegna þessa áðurnefnds gráleika heldur vegna dularfullra nágranna sem ganga framhjá húsi okkar yfirleitt þegar við förum inn og út úr húsi eða bíl eins og í leiðslu, þungum skrefum, með hendur beint á undan sér! Ég hef að sjálfsögðu dæmt allt þetta fólk sem afkomendur Frankenstein en sá hinn sami virðist hafa elt mig á röndum frá því við Arnar heyrðum hann anda vélrænt úr nálægri koju í Sigurðarskála við Kverkfjöll. Um geðslag nágranna ætla ég ekki að dæma hér en ungarnir á heimilinu kippa sér ekkert við dauðyflislegt göngulag þeirra, enda vanar og búið hérna við Frankensteinsbreiðstrætið frá ungri bernsku eða fæðingu.
Ég mæli með óhugnanlegri aðventu og lestri á gömlum bókum undir teppi s.s. bókina um hinn títtnefnda þokkafulla og sjarmerandi Frankenstein.