þriðjudagur, 30. mars 2010

athyglisbrestur, Duras og hretið-Manifestó um vor

Vorið er komið
vegna þess að hitastigið er loksins undir frostmarki...sem þýðir að páskahretið er mætt.
aðfararkvöld vorjafndægurs var Afmælispartýið mitt haldið sem endaði með eldgosi. Ég bjó til kökur til heiðurs pipi og pupu, síðan var kátt í höllini á móugleði með nýjum lakkrís frá góu.
Annars er allt einhvern veginn miklu hressara með vorinu, lóunni og gosinu.
Ég hef litla löngun til þess að ganga í opið ginið á eldgosinu, en hefði svo sem ekkert á móti því að sjá smá glæringar á meðan ég fæ mér gos og hraun...
Hins vegar hefur mér loks tekist að greina sjálfa mig með athyglisbrest á háu stigi, einbeitingu á lágu stigi. En svo hef ég líka greint gervallan vestræna heiminn með egóismaathyglisbrest sem er að sjálfsögðu afleiðing kapítalisma og karlrembu.
Litlu beinin stækka allt of ört, sú eldri með gelgjustæla milli þess sem hún óttast heimsenda, sú yngri farin að kunna stafina og mikill bókaormur.
Ég sakna kirsuberjatrjáa, hljóðsins í trjánum og þegar froskarnir vakna til vorsins.
Get þó þakkað öldruðum nágrönnum fyrir að gefa fuglunum í garðinum og líður því næstum eins og ég sé komin á ítalskan veitingastað þegar ég geng út í garð.

mig langar til útlanda.

mánudagur, 15. mars 2010

pipiogpupu er fimm ára!

blogg þetta hófst fyrir fimm árum og átti mestan part að vera fréttaveita um litla fjölskyldu. Ungabarnið sem skapaði fjölskylduna er líka orðin fimm ára og er nú inni í herbergi í hrókasamræðum við litlu systur og það þó þær eigi að vera löngu sofnaðar. Reyndar átti ég annað blogg sirkabát ári fyrr sem hét sama nafni en því var eytt úr úthafi internetsins...sem mér finnst nú miður, soldið eins og að týna dagbók. Já og þrátt fyrir að hafa flutt upp undir þrjátíu sinnum er það eina dagbókin sem ég hef týnt. Á safn handritaðra dagbóka sem bera vitni um misgáfulegar hugsanir mínar hverju sinni. Nú fimm árum eftir upphaf þessa bloggs, má eiginlega segja að bloggið sé hálfdautt (eins og ljóðið og guð) flestir mínir tenglar hér til hliðar skrifa lítið sem ekkert. Ef einhver hefði sagt mér á unglingsárum að ég ætti eftir að halda einhvers konar opinbera dagbók...hefði ég sagt er ekki í lagi með þig! En ég gat heldur ekki ímyndað mér að ég gæti sent fólki hinum megin á hnettinum rafræntbréf á innan við mínútu, hvað þá beinlínis spjallað við fólk einhvers staðar í útlöndum og horft á það um leið! Nei þessi jamesbondgadget veröld er skrítin og kemur sífellt á óvart.
Svo er allt hitt sem helst óbreytt, hvernig rigningin fellur, sólin rís og hvernig þrátt fyrir allt, þá lætur vorið sjá sig að lokum. já til hamingju með pipiogpupubloggafmæli!

fimmtudagur, 11. mars 2010

nokkur atriði sem benda til þess að ég er að eldast og eigi afmæli í næstu viku....JIBBÍ

a. ég keypti mér fyrsta hrukkukremið í bónus um daginn...reyndar vegna þess það var ódýrara en nivea dagkremið, það heitir aþena!
b. ég er alltaf að prjóna og vonast til að prjóna jafn flott og amma einhvern tíman í bráð
c. ég stelst til þess að hlusta á gufuna.
d. langar á synfóníutónleika með manninum sem vill bara rokk rokk rokk!
e. ég horfi alltaf á bókmenntaþáttinn kiljuna aðallega fyrir Kolbrúnu og Pál, mér finnst þau fyndin en þáttastjórnandinn er yfirleitt með allt of löng innslög um karlpunga.
f. mér finnst 34 niðurdrepandi tala
g. ég var með þeim elstu á Bakkus síðustu helgi og í yngri kantinum á Boston.

æ, kann ekki stafrófið er það elli eða unglingamerki. Anyways.
p. for pink elska bleikan, ekki ellimerki.
og á afmæli bráðum þar sem allt á helst að vera bleikt. Eða eins og dætur mínar segja alltaf "mamma á afmæli bráðum og það er næstum eins og jólin"....(já ég kenndi þeim það)