fimmtudagur, 28. janúar 2010

sumar, vetur, vumar, setur, sutar????

Nei ég kvarta ekki, ég kvarta ekki þó sleðinn sitji einn og ónotaður, þó ég geti farið út án peysu, vettlinga og húfu, þó krakkarnir séu í endalausu drullumalli í pollagöllum. Nei ég kvarta ekki þó það sé ekki 20 og eitthvað stiga frost eins og í prússlandi...mér finnst þetta veðurfar bara ágætt í þetta skiptið. Viðurkenni þó að ég sé svolítið rugluð, að sjá laukana vera skjótast upp úr jörðinni, sjá grænt gras og steingráar gangstéttir.
Rigningin, gráminn, skýin, ljósbláminn, ljósgula grasið...allir þessir litir blekkja mig eins og laukana og ég er farin að halda að ég búi í miðevrópskri stórborg en ekki þessu menningarsnauðuskammdegisskulduga ríki(löng orð eru svo skemmtileg). Fegnust er ég þó yfir því að það sé farið að birta!

fimmtudagur, 14. janúar 2010

16 litbrigði af gráum

Er hægt að lesa af eins og af alvöru pappír. Hann les upphátt, geymir fjölda bóka, hægt að lesa blöð, blogg... léttur sem fiður sléttur sem særinn...Kyndillinn er víst framtíðin og hvað þýðir það fyrir bókelskandi fólk. Ég heyrði viðtal við bókakonu nokkra í útvarpinu, sú hafði fengið slíkt skrapatól í jólagjöf og var hæstánægð. Ég varð hálf sorgmædd og hugsaði ósjálfrátt er bókin virkilega orðin elliær og úrelt! Munu bókasöfnin, fornbókabúðir, bókabúðir, kál og kenning líklega uppáhaldsíverustaðir mínir í allri veröldinni einhvern tíman hverfa og Amazóna(og slíkar sniftir) taka við. Svo stalst ég til þess að kíkja á auglýsingu af þessu undratæki hjá Amazónu, já og skömm frá því að segja að ég virðist hafa íslenskanýtæknielskandigenið því ég hreifst af kyndlinum kostum hans, 16 litbrigðum af gráum. En samt ekki alveg því þegar ég lagðist upp í rúm í gær og las mína bók fór ég að hugsa, hvernig er að lesa af skjá, hvernig er að halda á skjá, hvernig er að finna ekki fyrir pappírnum, finna hversu margar blaðsíður eru eftir á þykktinni. Er hægt að lesa af skjá í rökkri(sem ástmaðurinn skammar mig alltaf fyrir). Bókin hefur líka sína eigin lykt, nýbókarlykt, gömlubókarlykt, pabbabækur lykta t.d. á alveg sérstakan hátt, reykingarpabbalykt með dassi af öryggiskennd.
Kalliði mig nostalgíurómantíker en ég veit það ekki ég elska bókarformið og er ekki viss um að kyndillinn lýsi upp framtíðina. krumminn á skjánum!

föstudagur, 8. janúar 2010

mánudagur, 4. janúar 2010

áramótaheit!

nei haltu nú! Móheiður ætlar að taka MMX með trukki, ekki færri en tíu áramótaheit upp í erminni, öll fjalla þau um mig og mína vellíðan. Já það á að taka klassíska vestræna eigingirni á þetta. Börnin orðin hálffullorðin og ég engin smábarnamamma lengur! Já já já...sandt er livet. Ísold vaknaði að morgni annars janúar tvöþúsund og tíu fimm ára. Hún byrjaði á því að taka í tennurnar og var frekar vonsvikin að engin væri dottin!
Svo var skellt í eina veislu og systurnar alveg farnar að kunna á rútínuna.
Þessi fimm síðustu ár þessa áratugs hafa verið fljót að líða og margt borið upp á þeim. Ísold sem kom í heimin lítil byssukúla sem ljósmóðirin rétt náði að grípa er orðin svo stór, veit svo mikið um þennan heim og afskaplega gaman að fylgjast með henni. Á þessu ári hefur hún lært margt nýtt s.s. stafina, dansað á sviði borgarleikhússins, farið upp á hálendið þ.e. í Landmannalaugar og um vestfirði. Þær systur finnst mér vera á mjög svo skemmtilegum aldri,gaman að vera með þeim og þær eru góðar vinkonur. Það er greinilega þroskandi að eiga systkini þó þessi mörgu raddbönd samankomin geti líka ært mann.
En um síðasta ár nenni ég svo sem ekki mikið að fara yfir, margt skemmtilegt gerðist en samt finnst mér síðasta ár ekki hafa verið gott ár í það heila. Ég er þakklát fyrir að við familían höfum verið sæmilega heilsuhraust og stelpurnar hafa dafnað vel og það er fyrir mestu eins og amma myndi segja:)