heimsendaferð til landmannalauga og Vestfjarða

var stórmerkileg í alla staði og fullkomlega ævintýralegt. Þetta var auðvitað fyrsta ferð þeirra systra upp á hálendið og fyrsta ferð Arnars til Landmannalauga. Þar kom frekar fljótt í ljós að við hefðum átt að pakka okkur mun betur saman því við vorum að bera heil heljarinnar ósköp frá bílastæði handan við á að tjaldi. En þetta tókst þó allt með þokkalegri sæmd, um kvöldið drukkum við kakó og böðuðum okkur í ánni. Þegar við loks lögðumst til hvílu byrjaði ég að kenna mér meins og svaf heldur lítið...fór þó alla leið upp í bíl að finna verkjatöflur og hlýja mér aðeins. Mér tókst sum sé að pakka öllu nema sokkum á sjálfa mig í þetta ferðalag. Tókst þó ekkert að sofna aftur þar sem barn í næsta tjaldi grét helling en þó var frakki sem varði nóttinni í að kvarta yfir barnaskaranum mun verri. Næsta dag vaknaði ég stokkbólgin í kringum auga og frekar aum. Hringjarinn frá notre dame mættur og okkur leist ekkert á blikuna. Við ákveðum að flýta planinu aðeins til að koma mér nær lækni og brunum því í búðardal. Þar tekur við okkur hávaðarok og hreppstjórinn bendir okkur á að tjalda í sælingsdal. Klukkan orðin margt þegar við skríðum undir sæng í tjaldinu og rokið frekar mikið. Næsta morgun er rokið orðið enn verra og tjaldið leggst liggur við á hliðina, augað mitt lítur enn verr út. Því er brunað í kaupstaðinn þar sem ég sæki mér læknishjálpar. Það var auðvitað ævintýri út af fyrir sig. Læknirinn afskaplega indæl ung kona sem finnur út úr því að medicine.com að þetta sé blah-blaus eitthvað á latínu sem ef breiðist yfir í öndunarfærin geti orðið til þess að ég eigi erfitt með anda. Hún gefur mér númerið á heilsugæslunni ef það skyldi henda og ofnæmislyf! Jájá lífið er seirt og kalt. Við snúum aftur í sælingsdal þar sem tjaldið er við það að fjúka og nú er góð ráð dýr, ákveðið er að flytja tjaldið neðar í tjaldstæðið og í meira skjól...það gengur að sjálfsögðu ekki áfallalaust. Það er mjög erfitt að taka niður reisulega bjúgutjaldið okkar í brjáluðu roki upp á hæð og ekki nóg með það heldur fýkur vindsængin okkar yfir allt tjaldstæðið. Arnar hleypur á eftir vindsænginni á meðan ég treð tjaldinu og afskaplega æstum börnum inn í bíl. Jæja við gátum svo tjaldað í þokkalegu skjóli og gert notalegt... Um kvöldið var sko farið út að borða. Næsta morgun er svo keyrt á sjálfa vestfirðina í fínasta veðri, komum við í sjórnæningja-húsinu sem féll vel í kramið hjá yngri kynslóðinni og svona ýmislegt. Ofnæmislyfið virðist virka á blessuðu notre dame einkennin sem er ágætt því þetta hefði alveg geta misskilist sem megaheimilisofbeldi;) Nú þá förum við á besta tjaldstæðið á Íslandi þ.e. á Tálknafirði þar sem er dásamleg aðstaða til að elda inni, þvo í þvottavél og fara í sund. Auðvitað fór þá hitastigið hríðlækkandi og næstu tvær nætur þær köldustu sem ég hef upplifað í tjaldi og ég neyddist til að kaupa mér rándýra ullarsokka á tálknafirði. Kakó drukkið í massavís og ekkert sérlega spennandi að fara á fætur í hellidembu:(. Það þýðir svo sem ekki að láta þetta á sig fá og fékk Arnar gistingu fyrir okkur hjá dásemdarhjónum á Súðavík. Á leiðinni þangað var margt skoðað og það verður að segjast eins og er að Vestfirðir eru guðdómlegir og fallegir í öllum veðrum. Það fyrsta sem við sáum svo á Ísafirði var Bónus og varð frumburðurinn gagntekinn af gleði...."Bónus hrópaði hún...þá getum við keypt hvítt brauð!" En hagsýna húsmóðirin ég hafði bakað nægar birgðir af brauði fyrir ferðina, á morgnanna var hafragrautur og lýsi....svo þið getið rétt ímyndað ykkur að það voru keyptir sykurpúðar í hinni fyrirheitnu "Bónus hjá fjöllunum" eins og ísold kallar Ísafjarðarútibúið. Í Súðavík mætti okkur gestrisni hin mesta, sól og spegilsléttur fjörðurinn sem hér eftir mun aðeins vera kallaður riviera norðursins:)

ps myndir á flickr

Ummæli

Móa sagði…
hins vegar gleymdi ég að geta þess að stelpurnar skemmtu sér hið besta þrátt fyrir kulda og vosbúð. Karólínu þurfti að draga inn í tjald á kvöldin og ég hefði þurft einhvers konar lím til þess að halda henni í fötum. Ísold var ekki alveg jafn heitfeng en undi sér hið besta, hún er mikill fjallaaðdáandi og fannst mest gaman að leita að tröllum, hún var líka dugleg að finna leikfélaga á flestum tjaldsvæðunum og hún er eiginlega hálfsvekkt yfir því að við höfum ekki farið í fleiri tjaldferðalög í sumar...
Haðed sagði…
salut toi, ça va ?
J'arrive en Islande la semaine prochaine pour 3 semaines. J'espère qu'on va se voir. Tu peux me contacter par e-mail aurelien.zolli@gmail.com
Bisous !
Aurélien
mikið að þið komust líf af!

Vinsælar færslur