föstudagur, 25. desember 2009

fimmtudagur, 24. desember 2009

þriðjudagur, 22. desember 2009

sunnudagur, 20. desember 2009

Fjórði í aðventu: síðasta sunnudagshugvekjan

Nú skal segja hvernig ungar konur í Norðurmýri halda jólin með jafnaðargeðinu að vopni...well ó well lífið er það sem kemur fyrir á meðan maður er upptekin við planleggingar. Já og jafnaðargeðið er ekkert sérstaklega hátt skrifað á tossalista næstu daga. En hvað um ég kláraði ritgerð sem ég hefði alveg öruglega getað vandað betur við,hitti vini, við familian áttum góðar stundir með löngum og langa í kópavoginum og ég hélt jólaafmæli fyrir litla jólabarnið mitt:
(varúð færsla breytist nú í væmið tal um eigin heitelskuðu afkvæmi)
Karólína varð þriggja ára í gær, stóra systir hennar vakti hana með hamingjuóskum(á sinni ofurskýru íslensku)og við foreldrarnir muldruðum hangandi sitt hvoru megin við þær á rúmbrík hjónarúmsins...Litlan var afar ánægð með að hún sjálf ætti loksins afmæli og tók því á móti öllum gestum með því að segja öllum"til hamingju með afmælið" þannig var það afgreitt! Og mikið hefur hún stækkað litla peðið mitt og þessi litla persóna þroskast. Það sem hún tekur uppá er stundum óborganlegt og líka stórfurðulegt.
Eins og þegar hún tók upp á því í haust að fara sanka að sér grjóti og er iðulega með fulla vasa af grágrýti. Nú nýlega fór hún að kjamsa á steinunum eins og hún ætli sér að verða forngrískur ræðulistamaður... Stóra systirin gerði okkur foreldrana afskaplega stolt því hún var full umhyggju og ástar til afmælisbarnsins--sýndi engin merki um öfundsýki. Samgladdist systur sinni og skemmti sér hið besta í litla
jólaafmælinu. Það er nú meira hvað þessi litlu skrippildi eiga mikið pláss í hjartanu.
(væmni búin)
Nei ég er ekki búin með jólagjafir og þið sem saknið kortsins verðið bara að gera ykkur þetta nöldur á pipiogpupu að góðu. Ég hef sko ekki bakað neitt meira nema ég gerði heilsukonfekt sem mínum ektamanni líst ekkert á. Ég er orðin stressuð, föndur er enn óklárað og farmvilleuppskeran farin til fjandans. En hvað um það ég bið bara um notaleg jól og að við höldum geðheilsunni. Já svo held ég bara að stressið sé hluti af jólunum þannig að það er ekki hægt að sleppa því alveg:)hátíðleikinn, æ nei finnst hann ekkert merkilegur....og árans verð of sein að pósta þessari færslu!Hvít jól, já takk!

sunnudagur, 13. desember 2009

þriðja kertis sunnudagur á þessum sýndarveruleikakrans!

Jú þetta er allt að koma, eða þannig en ég er bara frekar róleg og það var takmark þessa aðventuniðurtalningar. Meyjarskemman er orðin rósrauð fyrir tilstilli afskaplega duglegs lítils bróður(sem er ekki svo lítill lengur) og nú er stefna tekin á gjafatilbúning, ritgerðarklárun og svo auðvitað afmæli Karólínu. Já, Þrjú ár síðan Knútur ísbjörn fæddist í Berlín, Wilson mugga strandaði við íslandsstrendur og ég var fullkomlega viðþolslaus af óþolinmæði eftir þessari litlu gömlu geit minni. fyrir fjórum árum vorum við í Berlín á leið til íslands í jólafrí og jafnframt fyrstu jólin án pabba, fyrir fimm árum var ég kasólétt af frumburðinum, við Arnar tvö ein á sólvallagötu. Mikið líður tíminn hratt.

En systurnar fara alveg öruglega ekki í jólaköttinn þetta árið þar sem þær fengu guðdómlega reyndar konunglega jólakjóla frá ömmu þeirra og afa á sólvöllum. Ísold var svo hamingjusöm að hún getur varla enn á heilum sér tekið. Ég þarf augljóslega að gera e-h í mínum jólafatamálum svo líti ekki út fyrir að vera útigangskona við hliðina á þeim. Hins vegar erum við foreldrarnir enn að velta því fyrir okkur hvað við eigum að gefa þessum skottum...(til skammar ég veit) en má ekki kosta handlegg eða sálina? jólajólajóla hvað?
Það er nú meira hvað maður getur verið heillaður af þessu jólafyrirbæri. Og þessi hátíðleiki sem fólk er alltaf að tala um er hann svo eftirsóknaverður... Meira um það seinna.

sunnudagur, 6. desember 2009

heilagur nikulás (aðventa númeró dúó)

Jólaundirbúningur er hér í góðum farvegi síðan húsmóðirin tók þá ákvörðun að slappa af. Skrautið er í lágmarki, stelpurnar kláruðu piparkökurnar síðan síðustu helgi. Hins vegar er til nóg deig í ískápnum til að búa til fleiri. Svo er yngri kynslóðin dugleg við að syngja jólalög og við borðum öll mandarínur eins og að við fáum borgað fyrir það.
En sérst þú einn af þeim fáum lesendum þessa bloggs og eigir þú von á gjöf frá þessari familíu þá verð ég bara að hryggja þig með því að jú, jólagjafirnar sem koma héðan verða heimatilbúnar (alveg öruglega klastur). En það er auðvitað hugurinn sem gildir (hvaða gagn sem er nú að því). Já, sökum féskorts og almennrar óráðsíu í fjármálum verður þetta að vera svo ekkert sævar karl hérna eða debenhams! Hvað um það þetta er hins vegar stressfactor hinn mesti því nú þarf ég utan þess að klára tvær gáfulega ritgerðir, halda barnaafmæli og sómasamleg jól í auðarstræti, að smíða og klastra saman jólagjöfum! Það að ég sé að slappa af fyrir þessi jól er auðvitað helber lygi sit hér með uhuklísturputta og skrifborðið þakið rusli og engin gjöf komin í pappír. Jólin koma samt og allt það! og hvar er snjórinn?

(Viðbót frá ritstjóra: afrekaði að sjá nýju woody allen og hún er frábær mæli með henni! já og svo sá ég líka forsetafrúnna í yndislegum bleikum jogging með hlébarðarönd á hjóli við bessastaði á þessum ótrúlega fallegum degi.)

sunnudagur, 29. nóvember 2009

1. í aðventu

ég man mjög vel eftir því þegar ég kom til Íslands fyrst um jól. Það var eins og að ganga inn í litla jólasnjókúlu, ævintýraveröld. Allt svo fullkomlega jólalegt og hátíðlegt. Mjólkurglasið og smákökurnar hjá ömmu í skjólinu, þegar ég sá jólasvein í holtagerðinu og amma manaði mig upp í að hlaupa á eftir honum með pönnuköku. ég kom að sjálfsögðu ekki upp orði, af feimni. Ég var með stjörnur í augunum þegar ég flaug svo heim þar sem reyndar ég þurfti ekki að ganga í vetrargalla, húfu eða vettlingum...
Ég man líka eftir að hafa heyrt ættingja mína vera kvarta yfir jólastressi...skyldi þetta nást... sögðu þau. Þá náði ég engan veginn þessari hugmynd, hverju vildu þau ná og hvernig í ósköpunum gat þeim þótt þessi ævintýraveröld stressandi. Núna get ég vel skilið þetta fullorðna fólk, það þarf að njóta aðventunar svo mikið, baka svo mikið, kaupa gjafirnar allar og ná að föndra með börnunum, föndra gjafir, fara í öll boðin, jólahlaðborðin, ekki eyða of miklum peningum, gera þennan asnalega krans, skreyta...allt að sjálfsögðu áður en klukkan slær sex á aðfangadagskvöld, jesús góður maría og jósep! Þurfa allir íslendingar alltaf að vera jafn fullkomnir um jólin. Slöppum af um jólin!
ps. ég er búin að baka piparkökur, fara með krakkana á sleða um helgina og nei ég er ekki búin að skreyta og hef ákveðið að sleppa jólakortum þetta árið!

föstudagur, 13. nóvember 2009

hjal og tal

ísold hefur margt að segja, hún t.d. vaknar talandi. Yfirleitt til að segja frá draumum sínum sem eru mjög litríkir og svakalegir. í dag vaknaði hún til að segja mér að vinkona sín á leikskólanum hefði sagt :"mamma, x segir að herra latur heiti herra hvíli" Ég verð að vera sammála vinkonunni að það nafn hljómar mun betur.
litlan er loksins farin að segja nafn sitt almennilega þó við séum strax farin að sakna kanínu litlu... hún heitir KA ro Lí na eins og hún segir með miklum tilþrifum. áðan á klósettinu spurði hún mig "mamma engarðu bara pissa?" já sagði ég, hún svarar stóreyg " ég enga(elska)að kúka"!
Viðræður systrana geta svo verið óendanleg uppspretta gleði og undrun, karólína vaknar yfirleitt fyrst og reynir að vekja systur sína sem vaknar svo og byrjar strax að mala "karó eigum við að koma leika" eða "karó eigum við að búa til búð" og svo taka þær strax til við að leika og stundum erfitt að gera þeim ljóst að það sé ákveðin dagskrá í gangi. Um daginn voru þær að ræða daginn sinn á leikskólanum, litlan segir við vorum í döngdund þá kemur stóra strax Nei þú átt að segja SÖNGSTUND óaðfinnanlega litlan segir aftur hátt og enn óskýrt DÖNGDUND og svona halda þær áfram endalaust sem stundum endar í hláturkasti og stundum í rifrildi.
Ísold kallar systur sína nokkrum fyndnum uppnefnum. Oft segir hún t.d. þegar systirin er eitthvað að prakkarast...þú ert ALGJÖR og nýverið hefur hún tekið upp á því að kalla hana Rassgatið þitt, eða algjör kanína og skopparakringla:). Systirin svarar iðulega nei ég heiti Ka ró lí na!

fimmtudagur, 29. október 2009

le petit chaperon violet


petit chaperon violet, originally uploaded by pipiogpupu.

skikkjan er sum sé búin og það fyrir nokkru...en ég veit ekki hvað hefur tafið montfærsluna mína. Það var í lok september sem litla ævintýraprinsessan fékk hana loksins og hún var ekkert smá ánægð. Bætti við borða í hálsmálið þar sem hún er nokkuð stór á hana Ísold, en það þýðir líka að hún muni geta notað hana lengi. Hvað sem litla skinnið segir ....hum grín eða eins og Ísold myndi segja sjálf "hvaða sjúka grín er þetta?". Ísold kallar flíkina fjóluhettu og er hún notuð til jafns spari og í ævintýraleikritum Ísoldar. Það skemmtilega við að prjóna þessa flík að ég lærði svo margt, lesa uppskrift og alls kyns kúnstir sem ég kunni ekki áður. Og þó það taki tíma sinn er svo gaman að sjá kláraða flík

þriðjudagur, 20. október 2009

long time no see/sea


IMG_2689, originally uploaded by pipiogpupu.

our first date a few years ago on Kastanienallee!

laugardagur, 17. október 2009

barnaby framtíðarinnar

barnaby kvöldsins gerist í sultuverksmiðju...mér finnst það eitthvað svo eðlilegt. En velti því samt fyrir mér hvort það sé ekki svolítið hættulegt að búa í þessum annars svo aðlaðandi uppsveitum englands, barnaby hefur í nógu að snúast a.m.k.!
Ég snýst líka eins og hringekkja um sjálfa mig þessa daganna og spái í bolla í gríð og erg. Er hreinlega að spá í þessum normalt spurningum sem koma upp þegar maður er ung kona á framabraut, hvort kona sé á réttri hillu og svoleiðis. Hef enn ekki vaxið upp úr draumum mínum eða uppfyllt þá; að vinna í risavöxnu marmaralegnu bókasafni á hvítum og bleikum hjólaskautum, vera viðfang í svefnrannsóknum, gerast desertkrítíker sem ferðast um allan heim og síðast ekki síst, trúður:)
En hvað verður verður víst að koma í ljós!

þriðjudagur, 22. september 2009

af hverju eru fiskar í sjónum, mamma?

Spurði eldri dóttir mín eitthvað í kringum afmæli Darwins gamla...ég viðurkenni að ég fór ekki út í þróunarkenninguna. Aðallega vegna þess að þessi spurning var ein af fimmtíu sem rann úr munni stúlkunnar í stríðum straumi. Hún getur sko talað, það skýrt og hátt. Mamma, hvenær má ég eiginlega gifta mig? er líka mjög algeng spurning og um daginn spurði hún mig hvort hún mætti mála hárið á sér svart...það er svo flott!!!
Ég er farin að notast við uppnefni sem fyrrum nágrannar mínur fundu upp og kalla hana við þessi tilefni: Fröken Málfríður Tungufoss.
Yngri dóttirin fór í málþroskapróf og heyrnarmælingu sem gekk ljómandi vel. Ég var líka spurð út í orðaforða dótturinnar en sleppti því algerlega að segja að þessi litla dama hefði sagt angotans um daginn...(við það blótaði ég sjálfri mér í hljóði) jú hún segir heilar setningar og horfir á líka á heilar bíómyndir,(var heldur ekkert að segja að tveggja og hálfsárs dóttir mín væri sjónvarpssjúklingur). ég veit ekki með þetta uppeldi er það ekki bara ofmetið fyrirbæri ;)

miðvikudagur, 2. september 2009

heimsendaferð til landmannalauga og Vestfjarða

var stórmerkileg í alla staði og fullkomlega ævintýralegt. Þetta var auðvitað fyrsta ferð þeirra systra upp á hálendið og fyrsta ferð Arnars til Landmannalauga. Þar kom frekar fljótt í ljós að við hefðum átt að pakka okkur mun betur saman því við vorum að bera heil heljarinnar ósköp frá bílastæði handan við á að tjaldi. En þetta tókst þó allt með þokkalegri sæmd, um kvöldið drukkum við kakó og böðuðum okkur í ánni. Þegar við loks lögðumst til hvílu byrjaði ég að kenna mér meins og svaf heldur lítið...fór þó alla leið upp í bíl að finna verkjatöflur og hlýja mér aðeins. Mér tókst sum sé að pakka öllu nema sokkum á sjálfa mig í þetta ferðalag. Tókst þó ekkert að sofna aftur þar sem barn í næsta tjaldi grét helling en þó var frakki sem varði nóttinni í að kvarta yfir barnaskaranum mun verri. Næsta dag vaknaði ég stokkbólgin í kringum auga og frekar aum. Hringjarinn frá notre dame mættur og okkur leist ekkert á blikuna. Við ákveðum að flýta planinu aðeins til að koma mér nær lækni og brunum því í búðardal. Þar tekur við okkur hávaðarok og hreppstjórinn bendir okkur á að tjalda í sælingsdal. Klukkan orðin margt þegar við skríðum undir sæng í tjaldinu og rokið frekar mikið. Næsta morgun er rokið orðið enn verra og tjaldið leggst liggur við á hliðina, augað mitt lítur enn verr út. Því er brunað í kaupstaðinn þar sem ég sæki mér læknishjálpar. Það var auðvitað ævintýri út af fyrir sig. Læknirinn afskaplega indæl ung kona sem finnur út úr því að medicine.com að þetta sé blah-blaus eitthvað á latínu sem ef breiðist yfir í öndunarfærin geti orðið til þess að ég eigi erfitt með anda. Hún gefur mér númerið á heilsugæslunni ef það skyldi henda og ofnæmislyf! Jájá lífið er seirt og kalt. Við snúum aftur í sælingsdal þar sem tjaldið er við það að fjúka og nú er góð ráð dýr, ákveðið er að flytja tjaldið neðar í tjaldstæðið og í meira skjól...það gengur að sjálfsögðu ekki áfallalaust. Það er mjög erfitt að taka niður reisulega bjúgutjaldið okkar í brjáluðu roki upp á hæð og ekki nóg með það heldur fýkur vindsængin okkar yfir allt tjaldstæðið. Arnar hleypur á eftir vindsænginni á meðan ég treð tjaldinu og afskaplega æstum börnum inn í bíl. Jæja við gátum svo tjaldað í þokkalegu skjóli og gert notalegt... Um kvöldið var sko farið út að borða. Næsta morgun er svo keyrt á sjálfa vestfirðina í fínasta veðri, komum við í sjórnæningja-húsinu sem féll vel í kramið hjá yngri kynslóðinni og svona ýmislegt. Ofnæmislyfið virðist virka á blessuðu notre dame einkennin sem er ágætt því þetta hefði alveg geta misskilist sem megaheimilisofbeldi;) Nú þá förum við á besta tjaldstæðið á Íslandi þ.e. á Tálknafirði þar sem er dásamleg aðstaða til að elda inni, þvo í þvottavél og fara í sund. Auðvitað fór þá hitastigið hríðlækkandi og næstu tvær nætur þær köldustu sem ég hef upplifað í tjaldi og ég neyddist til að kaupa mér rándýra ullarsokka á tálknafirði. Kakó drukkið í massavís og ekkert sérlega spennandi að fara á fætur í hellidembu:(. Það þýðir svo sem ekki að láta þetta á sig fá og fékk Arnar gistingu fyrir okkur hjá dásemdarhjónum á Súðavík. Á leiðinni þangað var margt skoðað og það verður að segjast eins og er að Vestfirðir eru guðdómlegir og fallegir í öllum veðrum. Það fyrsta sem við sáum svo á Ísafirði var Bónus og varð frumburðurinn gagntekinn af gleði...."Bónus hrópaði hún...þá getum við keypt hvítt brauð!" En hagsýna húsmóðirin ég hafði bakað nægar birgðir af brauði fyrir ferðina, á morgnanna var hafragrautur og lýsi....svo þið getið rétt ímyndað ykkur að það voru keyptir sykurpúðar í hinni fyrirheitnu "Bónus hjá fjöllunum" eins og ísold kallar Ísafjarðarútibúið. Í Súðavík mætti okkur gestrisni hin mesta, sól og spegilsléttur fjörðurinn sem hér eftir mun aðeins vera kallaður riviera norðursins:)

ps myndir á flickr

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

pabbi

Ég á í miklum erfiðleikum með að útskýra fyrir ungri dóttur minni dauðleika okkar mannanna, einhvern veginn vefst mér tunga um tönn, kem ekki upp orði til að lýsa því. Í dag á pabbi afmæli og þá fannst henni ísold eðlilegt að pabbi kæmi aftur. "kemur hann aftur" spurði hún vonbjartri röddu þegar ég var að tala um afmæli hans í dag. En nei ekki gat ég nýtt mér fimm ára heimspekinám í það skiptið og kannski þarf ég ekki að lýsa því fullkomlega fyrir henni hvernig manni líður eins og tómri skel og hálfmunaðarlausri án elsku pabba. En svona er lífið seyrt og kalt myndi pabbi segja, hann hefði líklega viljað að ég keypti handa honum enn eina bókina, farið með mér á mokka og gefið mér vöfflu með sultu og rjóma, mikið sakna ég hans.

mánudagur, 24. ágúst 2009

síðasta vikan í ágúst

er eins og sunnudagur sumarsins...haustið kemur á morgun, hræðilega þunglyndisleg mynd í sjónvarpinu og angistarfullur mánudagurinn á næsta leyti. Fyrstu skrefin í ýmsum skólum, spenna og kvíði í einhvers konar magahnút. Ég ætlaði nú alltaf að skrifa hér ferðasögu úr okkar ótrúlega ævintýralegu tjaldferð á hálendið og á vestfirði... og hver veit nema maður gefi sér tíma í slíkt hér í bláberjaskyrsfjólubláa svefnherbergi mínu. tæknilegir örðugleikar eru líka á vegi mínum...því tölvan virðist vera yfirfull af dauða og þungarokki(undarlegt nokk)!

föstudagur, 3. júlí 2009

sumardvöl í mýrinni


bollagöturóló, originally uploaded by pipiogpupu.

Við kvörtum sko ekki hér í mýrinni þó við komumst ekki á frönsku rivieruna í sumar né næstu tíu...svona miðað við islavesaminga ...
sumarið í mýrinni er ljúft, fuglasöngur og blómstrandi garðurinn. Svo reynum við að fara sem oftast upp í skammadalinn að huga að grænmetinu, í útiklefa vesturbæjarlaugarinnar, róló og höfum það hið fínasta. Litlu stelpurnar dafna hið besta í íslenska sumrinu og nú er aðeins vika í að þær fari í frí, ójá velkomið frí!

fimmtudagur, 4. júní 2009

fésbókarblogg

móheiður á fullt í fangi með lítinn graffara sem uppnefnir sjálfa sig kanínu, sú fann fatatúspenna og merkti nokkur horn og gluggakistur í íbúðinni, hvernig næ ég þessu af? almennar skammir og hefðbundið uppeldi virðist ekki virka á kanínu hún hlær bara að mér. Dramatúrgur heimilisins sem kallar sjálfa sig ísold/prinsessa/hellókittý/línalangsokkur...osfrv. gengur líka ágætlega í að gera allar mínar tilraunir til uppeldis hlægilegar með því að gera leikrit úr þeim;) En að sjálfsögðu fyrirgefst þeim allt vegna þess þær eru fullkomnir dásemdarhnoðrar að aðalstarfi.

miðvikudagur, 20. maí 2009

sumarið græna og ömmuafmæli

hef þá kenningu að hér á ísalandi sé ekkert vor... það er bara ömurlega hráslagalegt þar til skyndilega out of the blú birtist sumarið. Og íslenska sumarið er guðdómlegt hvað þá það norðurmírska, gatan verður græn á einum vettvangi, túlípanar sem hefðu átt að blómstra í vor springa út og já bara ljúft. Börnin fara út að leika sér í peysum sem fyrir rúmri viku síðan var fáránleg tilhugsun...þá voru það úlpur og lambhúshettur...Húrra fyrir sumrinu.


p.s. get vel skilið að lesendur séu búnir að yfirgefa mig eftir alla vanræksluna...en það verður bara að hafa það:)

mánudagur, 27. apríl 2009

Ísold æfir fiðrildi á generalæfingu

5. apríl dansaði Ísold á sinni fyrstu balletsýningu...ég verð að viðurkenna að ég var nokkuð kvíðin að senda hana á risastórt svið og var jafnvel að spá í að láta hana sleppa því. En svo hugsaði ég að þetta gæti verið jákvætt... var reyndar viss um að hún myndi frjósa(eins og hún gerði á jólasýninguni en var þá samt mjög ánægð með frammistöðu sína) nema hvað ég gerðist hjálparmamma og var með henni baksviðs og öllum hinum fiðrildunum og hún tók sýninguna í nefið! Um leið og hún komst á sviðið fór hún að gera arabesque og öll hin sporin eins og hún hefði aldrei gert neitt annað...svo einbeitt var hún að hún trítlaði alveg yfir allt sviðið og lét sér hvergi bregða. Ég hef nú sjaldan verið svona stolt, brosti út að eyrum með tárvot augun. Já litla gullið. ég skildi allt í einu mína foreldra svo miklu betur og sá fyrir mér svipinn á pabba( sem gat sko ekki leynt því ef hann var stoltur af manni... sem gerðist einstaka sinnum). já svona var það.

föstudagur, 17. apríl 2009

eftir leikskólann

ég sá kónguló í leikskónanum mamma...segir sú eldri með hræðslutón og hún var sofandi!
nú sagði mamman
já og ég var svo hrædd
en hún er miklu minni en þú, heldur þú ekki að hún sé þá hræddari við þig en þú við hana
já ég er sko miklu miklu miklu stærri en hún, segir hún ánægð, en þú Karólína ert bara soldið stærri
nei ég er stór segir sú litla
nei þú ert lítil segir sú stóra
nei ég er stóóóóóóór!
NEI svona lítil með handabendingu
svona lítil segir sú litla með handabendingu líka, en skælbrosandi og alveg sátt við þessi vísindi systur sinnar...

fimmtudagur, 16. apríl 2009

Carmensita

pour s'en sortir il faut fermer les yeux
pour ouvrir les yeux et voir
par contre c'est plus compliqué

sunnudagur, 29. mars 2009

hvar er vorið?

fór í gær ásamt hjartfólgnum eiginmanni á músó og reyndar líka á skyndi-indie tónleika, hátískusamkomu og einn nightcap. Músó var athyglisverð, unglingarnir safna enn óhóflega miklu hári, spila bæði skemmtilega og drepleiðinlega tónlist, velja latínuskotinn, illa stafsett orð eða mythológísk nöfn á hljómsveitirnar sínar, enn eru eitthvað af grúppíum sem hanga í kringum þessar hljómsveitarhetjur, aðeins ein stúlka var þar lungnabólgufáklædd og vinkona hennar á of stórum pinnahælum til þess gerð að fótbrjóta hana. Lexía kvöldsins: nota skal hléið til að fara á klóssettið annars pissar maður í sig af leiðindum þegar hljómsveitir geta ekki endað lögin sín.
Almennt séð fannst mér unglingarnir frekar krúttleg og myndarleg ungmenni, fyrir sirka tíu árum þegar ég fór alltaf með Arnari fannst mér þau enn ógnvænleg(sum sé orðin aðeins eldri). Dómnefndin ekki jafn pungsveitt og þá sem er náttúrulega frábært þó ég ég þoli erfiðlega að sjá eiginmanninn umkringdan kvennfólki! (blóðhitinn frá heimaslóðunum virðist ekkert fara þverrandi þrátt fyrir kulda og vosbúð hér í norðri)!!!
Skyndi indíið í einhverju nýju samkunduhúsi kallað kaffistofan var mjög indie, indie krakkar eru alltaf jafn notalegur intro þjóðflokkur. Hátískusamkundan var hins vegar líklega erfiðust í horn að taka þar sem mér leið eins og hallærislegustu veru í heimi íklædd ódýrum undirkjólum, kápu frá haustlínu 2006 og ódýrri...svo dirfðist ég að vera flatbotna gömlum skóm...guðlast. Þar var ég ánægðust með að hitta berlínarvin.Það er hart að vera rokkari eins og færeyingarnir segja!
að lokum vil ég leggja til að sjálfstæðisflokkurinn verði lagður í eyði og framsókn stoppuð upp í þjóðminjasafninu.

þriðjudagur, 24. mars 2009

muffet-skikkjan

meira af prjóni, skikkjuuppskriftin er alveg að fara með mig... hef þó ákveðið að fara eftir mínu nefi og umfram allt, aldrei að rekja upp! svo kannski endar hún eitthvað undarlega litla epíska muffetskikkjan hennar Ísoldar. Hins vegar fór ég út í viðamikla leit á internetið í gær til þess að finna lausnir á þessum híróglívum sem hjálpaði eitthvað. Mitt í öllu heyinu fann ég heimasíður hjá nokkrum prjónurum sem mér fannst ég eiga margt sameiginlegt með og meira að segja líklega sálufélaga...undarlegt. Ætla þó að láta þessa líklegu sálufélaga hinum megin á hnettinum vera og rækta mína heimaræktuðu í bili.
Amma í holtó gaf mér svo markmið til að stefna að en það er að klára skikkjuna fyrir sautjánda júní!

mánudagur, 16. mars 2009

heimspekingar og uppreisnarseggir

merkilegt nokk, litla stóra stelpan tók sig til og leiðrétti framburð mömmu sinnar...í kvöld var ég að segja henni frá því að þegar ég var að alast upp vissi ég að vorið kæmi á afmælinu mínu! Sagði henni frá kirsuberjatrjánum bleiku og froskasöngnum fagra(ætla ekki einu sinni að fara út í veðurfarið hér:(.
"mamma, maður segir B l ó m s t rrrrr a". Fjögurra ára hnátan(litli heidegger) sagði síðan við systur sína litlu " Karólína, mundu að missa ekki af að verða stór"...
sem mér finnst bara nokkuð gott heillaráð og ætla líka fara eftir! Litla systirin ætlar að verða meiri rebell en heimspekingurinn, hefur nú frá því hún gat labbað reynt alveg ofboðslega oft að hlaupast á brott og það út á götum og um daginn eftir að hún hafði hlaupið frá mér á miðju bílastæði varð ég nokkuð reið, litla barnið leit þá á mig stóreygt og sagði kjökrandi "móa er ekki mamma mín, huh"...
Þrátt fyrir afneitun og leiðréttingar þeirra stuttu þykja mér þær iðulega gáfulegri en margir fullorðnir en það sagði pabbi alltaf við mig þegar ég var lítill hnoðri. Á morgun verð ég einu ári vitlausari en auðvitað reynslunni ríkari(þó þjóðin sé nokkrum auðmönnum fátækari;))....þrjátíu og þriggja, þriðja mánuð ársins 2009...!(getur ekki annað en verið tákn um e-h fabulous) kreisíbeibí!!!

miðvikudagur, 11. mars 2009

prjónaðlíf

Livet heldur áfram kreppa eða ekki kreppa, þessa daganna og mánuði þykist ég vera orðin prjónakona hin mesta, versta er að ég prjóna á slow-motion. Er nú að prjóna skikkju á frumburðinn sem ég vona að hún passi í eftir ár eða svo. Svo langar mig auðvitað til þess að prjóna hálfan heiminn en þetta slowmotion dæmi setur strik í þann reikning. En ég hef lært hina ýmsustu hluti í prjóni á undanförnum mánuðum auk þess sem ég er komin inn í prjónasamfélag á netinu...silfurfit, úrtökur og prjónles(eins og sérfræðingarnir kalla þetta og ég skil raunar ekki fyllilega enn) Hef orðið vör við alls kyns pólítík í prjónheimum. En eins og Hörður Torfason sagði í útvarpinu um daginn er hver andardráttur pólitískur. Ef mér skilst rétt, þykir mest kúl að kunna að fara eftir uppskriftum en geta breytt þeim eftir hentugleik. Nú svo virðist vera uppskrift vera kúlari ef engir saumar eru heldur bara prjón. Mjög kúl þykir ull sem er lituð í bölum hjá artíhippum einhvers staðar í ameríku...liturinn má engan veginn vera jafn og marglitt er náttúrulega toppurinn. Hins vegar get ég ekki beðið eftir að geta rumpað af peysu,vettlingum eða sjölum(eins og þessu clafoutissjali sem engin virðist geta haldið vatni yfir) á nokkrum klukkustundum. já og ég á afmæli eftir fáeina daga.......JÚHÚ

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

álfadís og gríslingur


álfadís og gríslingur , originally uploaded by pipiogpupu.

öskudagur, afmæli, herðubreið og ýmislegt komið á myndasíðuna.
Annars er það að frétta af afkvæmunum að þau stækka og þroskast með degi hverjum. Komumst að því að Ísold kann að skrifa marga stafi þar sem hún er alltaf að fela sig og stelast til þess að skrifa þá á blöð og húsgögn! Karólína er bleyjulaus nema á nóttunni. Það kom mér mest á óvart eftir húsmæðraorlofið að hún er orðin altalandi þó sum orð séu auðvitað óskýrari enn önnur. Segir t.d. ennþá að hún sé að Besa bók og kisur heita bisur... Þær systur eru algjör gull saman og finnst mér yndislegt að fylgjast með þessu samspili þeirra. Því eins og þær eru ólíkir karakterar kemur þeim yfirleitt vel saman, knúsast mikið og kyssast og ef þær eru ekki sammála er ekki erfitt að fá þær til að biðjast afsökunar og kyssast....

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

yfirlýsingar

ég veit ekki hversu oft ég hef varað fólk við sjálfstæðisflokknum eða Davíð Oddssyni en það er töluvert oftar en do varaði við hruninu...í sumar vissi ég vel að hann væri ekki að gera neitt gagn þarna í sínum gráa turni, og í þessi sirkabát 17 ár sem þeir voru að einkavinavæða var ég á móti þeim! Maðurinn segist ekki hafa skálað með glæponunum...en samt gaf hann þeim banka...hann var höfuðpaurinn, dondavid út takk. Hættið svo að vorkenna þessum skarfi eða asnalega ólýðræðislega hugsaaðeinsumsitteigiðrassgat flokkinn hans! og ég nenni ekki að tala við fólk sem kýs þessa landráðamenn punktur og basta

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

mánudagur, 2. febrúar 2009

fugl-orðin og bleyjulaus

Rétt áður en vinstristjórnin tók við völd í gær fórum við mæðgur út á sleðann. Fröken Karólína var reyndar ekkert á því að láta draga sig og gekk röskum skrefum mér við hlið á meðan úngfrú Ísold lét fara vel um sig á sleðanum. En auðvitað hafði hún auga með litlu systur og lét hana alveg vita hvenær hún væri að nálgast götuna of mikið. Á klambratúninu stefndum við á nýju brekkuna, sem frænkurnar úr hlíðunum kynntu okkur fyrir og þar renndum við Ísold okkur eins og væri enginn morgundagur. Sú yngri sat á bekk og fylgdist með okkur en var ekkert á því að renna sér sjálf. Þegar við vorum búnar að renna okkur heil ósköp bað Karólína um kakó, við Ísold eltum svo hana niður á Kjarvalsstaði. Þar sem við sitjum og erum að hlýja okkur með heitum drykkjum, pírir sú eldri augun og segir, "Mamma, ég er fugl-orðin eins og þú" en það er einmitt vinsælasta staðhæfing hennar. Þetta þýðir að hún má gera sömu hluti og ég og líka bera ábyrgð á litlu systur. Karólína tekur þessu ekkert illa ekki og lætur ekkert stjórnast með sig frekar en hún vill en segir hins vegar oft "ég er lítil" og skríkir. Hins vegar eru vatnaskil í heimilislífinu (líkt og í stjórnmálunum) þessa daganna því Karólína fór í dag bleyjulaus á leikskólann, ójá og það gekk svona líka vel. Síðustu tvær vikur höfum við hvatt hana óspart til að fara á koppinn og hún hefur verið mjög dugleg meira að segja svo dugleg að hún hefur farið alveg ein og hellt úr koppnum sjálf í klóssettið! Helgin var svo bleyjulaus og þar með lýkur bráðum fjögurra ára bleyjuskeiði okkar...í bili a.m.k.

sunnudagur, 25. janúar 2009

sweet sixteen og mótmæli


Afmælisbarnið með frumburðinn minn og aðdáenda.

Það hefur skapast sú hefð á þessu lítilmótlega bloggi mínu að rita nokkur orð á þessum degi. Í dag á litli bróðir minn afmæli og er orðin heil 16 ára. Mér finnst eins og það hafi gerst í gær sem ég sá svarthærðan dreng nýfæddan, þá var ég einmitt 16 ára reyndar að verða sautján og hafði óskað eftir systkini frá því ég mundi eftir mér. Og litli prinsinn brást ekki vonum mínum(sem roðnar niður í tær ef hann les þetta) og hefur svo sannarlega orðið að ungum myndarlegum manni. Það verður að segjast eins og er að ég er ákaflega stolt af bróður mínum og af því að eiga hann að.
Við höfum mótmælt eins og við höfum getað undanfarna viku sem reyndar endaði með því að mér sló niður og hef legið í kvefi mest alla helgina. Arnar komst á forsíðu moggans þar sem hann sést hlaupa undan táragasi...undarlegir tímar.

Ég verð að segja að mér finnst þessi mótmæli/bylting kraftaverki líkast, að íslendingar standi loks upp og segi eitthvað láti í sér heyra finnst mér magnað.(vön þessum örfáu hræðum á 1. mai og minimótmælum) Með þessu er ég engan veginn að segja að ég styðji ofbeldið sem átti sér stað af beggja hálfu, ég er algerlega á móti því. En þau voru hins vegar miklu fleiri sem mættu og mótmæltu með pottaglamri og lófaklappi.

Nú er bara spurning hvað verður, einhvern veginn finnst mér allir þessir stjórnmálamenn vera órafjarri okkur venjulega fólkinu, hvað þá auðmennirnir og stjórnendur bankanna sem hafa gamblað með framtíð unga fólksins og barna okkar eins um væri að ræða spilapeninga. Sum sé Vanhæf ríkisstjórn!

mánudagur, 12. janúar 2009

Alvarlega balletmærin


Alvarlega balletmærin, originally uploaded by pipiogpupu.

myndir myndir frá fyrstu balletsýningu frumburðarins og allt fram á nýja árið. jóla jóla jóla og allar græjur.
Familían er enn að detoxa eftir jólin, börnin að komast í betri rútínu þó það allt taki tíma og þolinmæði. Stúlkurnar orðnar árinu eldri það er tveggja ára og fjögurra...og ekki amalegt það, þó það sé kannski beinlínis gelgjuskeiðið eru ýmis mörk sem þarf að reyna á hjá okkur foreldrunum. Nýja árið ber með sér ýmis fyrirheit og markmið fyrir okkur öll og vonandi náum við þeim.
Stúlkurnar eru nú mikið að leika sér í dúkkuhúsinu, lita, leira og perla og nýjasta afþreyingin nú um stundir er Maddit og sem er dáð af kvennfólkinu hér á bæ en þó ekki karlpeningnum sem skilur ekki hví við löðumst að þessu skandínavíska glúmíness.

fimmtudagur, 8. janúar 2009