laugardagur, 25. október 2008

fyrsta vetrarnóttin

stundum (eins og foreldrar ungra barna vita) þá geta næturnar eða nætursvefninn farið fullkomlega úrskeiðis. Þannig var nóttin okkar, ein systirin vaknar upp með harmkvælum og hin vaknar líka, allt í einu eru þessir litlu líkamar búnir að hertaka hjónarúmið svo við foreldrarnir liggjum í sitthvoru horninu með lítið horn af sængunum tveim. Svona um miðja nótt er maður nú ekkert sérstaklega undirbúin undir táhögg í andlit eða spark í magann, þegar svo systurnar fara í sólbaðsleikinn eða trampólínhopp, heyrist í aumum röddum foreldrana "það er nótt, elskurnar mínar...lokiði augunum" Nei nei þær létu ekki segjast yngsti fjölskyldumeðlimurinn fór að syngja öll lögin sem hún kann, afi minn og amma mín, gamli nói (reyndar sungið pabbi pabbi pabbi nói), dansi dansi gúkka mín og frumburðurinn vildi bara knúsa og vernda þá litlu með alls kyns tilfæringum. Nei örþreyttir foreldrar voru ekki að hugsa hve stoltir þeir væru af þessum hæfileikaríku og umhyggjusömu einstaklingum....þau vildu bara sofa. Eftir tveggja tíma þref, sækja vatn og þetta venjulega. Þá fór móðirin með ungana í sína eigin rúm, sú litla ætlaði sko ekki að láta segjast og varð alveg snar, móðirin reyndi að rugga litlu í svefn en ekkert gekk og hálf nóttin ónýt. Brá þá móðirin á það ráð að leggja litlu systur við hlið stóru systur, lét síðan hina undurfögru rödd Sigríðar Thorlacius leika fyrir svefni af hinni stórgóðu plötu gilligill....Og viti menn, systurnar sofnuðu í faðmlögum og foreldrarnir líka!

mánudagur, 20. október 2008

Brúðkaupsferðin og kannski síðasta ferðin!


Brúðkaupsferðin, originally uploaded by pipiogpupu.

áður en íslendíngar hættu að vera hipp og kúl yfir nótt, heimskreppan sprengdi íslenska kapítalismann og forsetafrúin fór að éta gullbryddað svið....þá fórum við til Berlínar í áhyggjulaust og skemmtilegt frí.

fimmtudagur, 9. október 2008

kreppuljóð

Kreppuljóð

(tileinkað S.S. 100 ára)

Tunglið er úr osti
og krónan er úr sandi
rann milli fingra sauðmanna

Úlfur úlfur
hrópaði hann
og Eyjan sökk í djúpt skuldahaf

björgúlfarnir flugu
á svörtum einkahröfnum
með skuldahala króna á eftir sér
eins og smástirni á svörtum himninum

Í Portúgal sitja þeir á plaststólum
Í kremlituðum frottésloppum
pappírinn orðinn að tisjúi
og orðstírinn að deigi

Við sitjum í súpunni
með steisíón bíl og kassalaga einingahús
tilboð á myntkörfum í toisareöss
og það er reykt ýsa í matinn.

Tíminn og vatnið
eða var það Tímon og Púmba á fréttatíma,

Verður gapastokkur á hallærisplaninu?

fimmtudagur, 2. október 2008

hvað skal gera!

jú ætli maður sé ekki orðin þunglyndur út af kreppunni miklu, farin að lesa viðskiptasíðu mbl, libération og le monde, kíki reglulega á eyjuna og allt kemur fyrir ekki, kapítalisminn virðist vera að falla. Peningaupphæðir sem erfitt er að skilja eru að hverfa í eitthvað efnahagssvarthol..

En hvað er hægt að gera þá, er búin að safna saman nokkrum kreppu/aðhaldsráðum svo ef þið pitchið inn þá get ég jafnvel grætt heilann helling næstu jól!!!(ég er ekki að tala um þessi einföldu eins að spara peninga og setja inn á bankareikning(enda virðist það ekki borga sig), eða versla í bónus(verslar einhver í nóatúnum nú til dags?).
kreppuráð

dagleg neysla
Drekka kaffið í vinnunni eða í opinberum stofnunum(s.s. bönkum hehe) og hætta að kaupa kaffi á kaffihúsum eða í búðum.
nota sodastream tæki fyrir gosvatnsáhugafólk, ef tæki ekki til sleppa gosinu.
láta sér nægja eina heita máltíð á dag í vinnunni, skyr á kvöldin og láta bjóða sér í mat um helgar.
endurnýta endurnýta og já endurnýta...allt milli himins og jarðar
ónýt föt er hægt að sauma í og gera að einhverju allt öðru og nýtilegu
elda súpu og láta endast í nokkra daga
tína ber og mosa upp á fjallendi (þannig lifði fjallaeyvindur og túristar í háa herrans tíð) Og ganga þangað (sleppa frá þrælabúðunum sem kosta morðfjár ... Laugar)
tíska/fatnaður
retro...eða bara halló
ekkert vera kaupa ný föt á sig eða börn
fá föt af eldri börnum(höfum alveg fengið holskeflu undanfarið sem betur fer)
menning
allt sem er ókeypis er gott
listasafn reykjavíkur og íslands
internetafþreyingarefnisstuldur(hef aldrei stundað slíkt...hum)
horfa á gömlu vídeóspólurnar, dvd
Lesa (ÚÚÚúúúú)
þekkja tónlistarblaðamenn, þeir spila nýja músík og bjóða manni á tónleika
Jólin
eigum við ekki bara að gleyma þeim þangað til á útsölunum í janúar

efnahagsráð
biðja davíð um að þjóðnýta heimilshaldið!

að endingu ef ekkert af þessu er nógu gott þá er staðreynd að við þurfum ekki gucci, bang og olufsen, ittala eða levis! merkjasnobb er ópíum kapítalistans!

Annars veit ég ekkert hvað ég er að tala um hef aldrei átt pening eða kunnað að spara, veit minnst um það hvað er að gerast, hver er að búllía hvern davíð eða jón ásgeir.
þigg hins vegar fleiri kreppuráð.