fimmtudagur, 31. júlí 2008

sumarið er tíminn

þegar maður/kona skrifar klisjublogg og áfram í þeim stílnum þá hef ég ekki farið á netið nú dögum ef ekki vikum saman. Já þannig á það að vera á sumrin er það ekki? ég er búin að gleyma existentialistaangistinni sem fylgir fésbókinni, lykilorðum á hinar og þessar síður. Hvað hef ég brallað í staðinn...ummm hvar á ég að byrja... Í fyrsta lagi vísitölufjölskylduhringvegaferðalag með stoppum í tveimur fáförnum en guðdómlegum austfjörðum var dásamlegt, veðrið elti okkur, eiginmaðurinn snúinn til útilegulífs og börnin elska tjaldútilegur svo mikið að eldri dóttirinn heimtar annað ferðalag í hvert sinn er við setjumst upp í bíl. Litlan hefur farið hamförum í prakkaraskap segir könguló með prakkararöddu hleypur eins og vindurinn og klifrar um allt. Veðruð fengum við að gista tvær nætur í parís norðursins í heimahúsi vina, þar hittum við kött að nafni Albert sem þó ekki væri stór var hann ógurlegt tígrisdýr í augum borgarbarna minna, þar fengu þær líka að smakka kókó pepps í fyrsta sinn... Akureyri er himnaríki. Svo var okkur boðið í afmæli í eyjafjarðarsveitinni fáeinar aldir aftur í tímann hlýjað sér við eld, borðuð heimaræktuð jarðaber með rjóma, pönnukökur bakaðar á heimasmíðaðri pönnu, víkingaknattleikur spilaður og geitur og kanínur skoðaðar í fjósinu. Já það er satt.
Þegar heim í borgina var komið var tekið til við að skoða leyndardóma höfuðborgar, sundlaugar í fjarlægum borgarhlutum kannaðar, fundum nýjan róló við seðlabankann (kannski bankastjórarnir ættu bara að taka nokkrar salíbunur ekki gera þeir gagn innanhús). Nú svo í dag kynntumst við árásarmáfunum við skítapollinn(tjörnina), borðuðum páfagaukaís, Ísold hitti bestu vinkonu sína af leikskólanum og fórum í geitungadrápsgrillveislu. Nú svo inn á milli bóna ég gólf, þvæ þvott, reiti arfa, berst við geitunga, brýt saman þvott og MAMMA Mía læt mig dreyma um að búa við miðjarðarhafið í vöggu heimspekinar grikklandi.mamma mía er frábær mynd hvað sem snobbarar og skarfar segja og ekki nóg með það hún er feminísk.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

sumarfrí

við erum komin í sumarfrí, mislangt að vísu. Skotturnar eru ægilega ánægðar með þetta enda komin tími til að koma þeim aðeins úr rútínunni og eyða tíma saman. Ég eyddi helginni sem grasekkjumamma og það var sko tekið til höndinni, farið í gegnum föt og fataskápa kvennþjóðar hér á bæ. Síðan kom rokkaður og lúinn Arnar úr rokkdokumentation á austfjörðum og er nú búinn að raka sig og ég klippti svo makkann af honum, sum sé nýr maður og var Karólínu nokkuð brugðið þegar hún sá pabba sinn svona hálfberan á hausnum.
Systurnar leika sér meir og meir saman sem þýðir líka að þær æsa hvor aðra upp í alls kyns mishávaðasama iðju, hoppa, kitla og æpa úr sér lungun...Já það leikur sér! Það eru auðvitað mikil plön fyrir sumarfríið og strax búið að sprengja það með aktívítet af ýmsum toga. jamm og já var að lesa bloggið eitthvað aftur í tíman og sá ég að margar færslur enda á því að ég segist annars hafa lítið að segja...merkileg mótsögn en ég endurtek Á dagskrá næstu viku verður Áá daagskráá nææstuu viiikuuuuuu!

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Maðurinn minn


Burt Reynolds-stellingin, originally uploaded by pipiogpupu.

sjón er sögu ríkari....
smá spennuuppbygging í brullaupsmyndamálum!

miðvikudagur, 9. júlí 2008

óbærilegur léttleiki tilverunar...

það er eitthvað svo undarlegt við það að þegar eitthvað endar og eitthvað nýtt tekur við þá er ákveðið millibil milli endisins og hins nýja sem getur verið óendanlega sorglegt nema maður finni fyrir andvara hins nýja.

útivera

við fjögur fræknu erum lítið innivið þessa daganna, yngsta barnið fer að hágráta um leið og við förum inn fyrir hússins dyr. Strax eftir leikskóla hlaupa stelpurnar eins og þær eigi lífið að leysa beint út í garð, í gær borðuðum við kvöldmatinn á la veranda, stelpurnar léku sér svo þangað til þær voru settar í bað og rúm. Um helgina gerðum við gott betur og gistum í tjaldi, raunar í annað skipti þetta sumarið sem við gistum við fagra vatnið. Í þetta skiptið hittum við fyrir Stellu Soffíu og Kristján og þeirra dömur. Frænkurnar Ísold og Áslaug Edda léku sér út í hið óendanlega og voru eins og tvær baunir í belg. Litla skvísan mín var líka í essinu sínu enda engir húsveggir nálægt og minnsta prinsessan á svæðinu virtist líða best í kúrulegum magapoka. Eftir ágæta nótt var þvílíkt kanaríveður í þjóðgarðinum og náðum við flest að flatmaga eitthvað og teiga expresso. Arnar sofnaði reyndar í sólinni með gleraugun á enninu og er með skemmtilegt far eftir það. Annars hef ég lítið að segja um mikið eða mikið um lítið þessa daganna, og á veröndinni er ein alaskaöspin í andarslitrunum að snjóa hvítum bómullarfræum.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

summer dancing in ponderosa

Það verður að segjast að merkileg er hegðan íslendinga í sambandi við veðrið, fyrir utan þá margtuggðu staðreynd að hér er rætt um veðrið endalaust, hef ég einnig orðið vör við meðvirkni með rigningunni. Eftir því sem veðrið varð betra og gerði lífskilyrðin hér á landi bærileg fóru að heyrast fleiri raddir að nú þyrfti sko að rigna duglega eða við megum nú við smá gróðurskúrum eða hvar er þessi rigning sem veðurfræðingurinn var búinn að spá(með löngunartón)...og allt er þetta fyrir gróðurinn. Í löndum þar sem þurrkur er vandamál bíður fólk í marga mánuði eftir dýrlegum gullslegnum dropunum. Hér erum við búin að liggja í bleyti frá því í ágúst á síðasta ári og gróðurinn með og sjáist til sólar í meira en viku samfleytt er fólk farið að bíða eftir rigningu! Já þetta er óskiljanlegt og sérstaklega vegna þess að ég er jafn meðvirk með rigningunni og allir í kringum mig en eins og velflestir þá vil ég samt sem áður sem mest af sól og sumarblíðu...svo er það hin merkilega staðreynd með íslenska veðurfarið að hér kemur ekki rigning nema rokið fylgi...hvað er þetta með rokið og rigninguna þau eru jafn háð hvort öðru og paul og linda mccartney eða plokkfiskur og rúgbrauð...