þriðjudagur, 30. janúar 2007

af börnum

er það að frétta að veikindi hafa verið að herja á dömurnar mínar, Ísold nýbúin að jafna sig af eyrnabólgu og kvefi í upphafi síðustu viku þegar sú litla fer að kvefast meir og meir. Á laugardaginn kíki ég til læknis með hana í annað skiptið og fæ þá að vita að hún sé líklega með rs-vírus. Sá var víst eitthvað búin að ganga á leikskóla þeirrar eldri, en Karólína sem í einhverri nafnabók þýddi lítil og sterk hefur verið dugleg að drekka og láta sér batna. Við sem vorum nýfarin að fara út að spóka okkur höfum því verið innilokaðar síðustu daga og eitthvað áfram. Karólína ætlar að verða brosmild, en hún fór að brosa rétt orðin þriggja vikna og brosir meir með hverjum deginum. Auðvitað er myndavélin aldrei til staðar þó á þessu gullnu augnablikum og auðvitað er myndavélin orðin eitthvað hálf léleg.
Hins vegar eignuðust stúlkurnar lítinn frænda á laugardag sem heitir Reginn og er litli bróðir hennar Sunnu sem við hlökkum þvílíkt til að sjá.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Ég sveik ykkur um annállinn og fólk líklega búið að missa áhugann á slíku þegar er svona langt liðið á janúar. En ðið er allt í einu horfið úr firefox vafranum mínum og ég veit ekki hvernig ég á að laga það (þetta er skrifað í safari)...er einhver tölvunörd hérna!! Sem kann svona. Jæja hvað um það hér er smá best of;

Vandræðalegasti atburður ársins 2006 (og fyndnasti svona eftirá):
Þegar ég ældi á húsvörðinn okkar herra Hamar. Það var ekki gert í gamni get ég sagt ykkur né til að móðga hann en ég var með morgunógleðina frægu sem ég virðist fá í stórum skömmtum þegar ég er ólétt. Ég var á leið niður risavaxna stigaganginn, ég fann æluna koma upp svo ég vatt mér að næsta glugga og ældi, ælan lenti á skallanum á herra Hamar sem var í óða önn að gera vorhreingerningu í pínulitla bakgarðinum. Ég sá að hann leit upp og var ekki skemmt að fá eitthvað gums á hausinn en ég hljóp út og skipaði Arnari með Ísold og Tobba að gera slíkt hið sama svo ekki kæmist nú upp um mig.... ældi svo í portinu til að gera ástandið enn betra!

Besta ferðalag ársins 2006:
Írlandsferðin góða, að koma úr vetrargrámanum með fúlu Þjóðverjunum inn í þetta dásamlega Baileys landslag með káta rauðhærða fólkinu er engu líkt. Það var yndislegt að keyra þarna um, tala við Írana, stoppa á sveitakrám með arineldi, gista á notalegum b og b, sjá sjóinn eftir nokkra mánaða sjóleysi ... líklega bjargaði ferðalagið geðheilsunni. Nánar: heilagurpatrekur.blogspot.com.

Besti drykkur ársins 2006:
Guinness í kránni við verksmiðjuna í Dublin....ummmmmmmmmmmmm, sjálfir Írar trúa á drykkinn sem allra meina bót, mæla til dæmis með því ef maður vill fara í megrun að drekka einungis Guinness því í honum eru öll næringarefni! Athyglisvert.

Versti drykkur ársins 2006:
Kaffið á Írlandi er gjörsamlega ódrekkandi, bragðast eins og gamalt te með kaffikeimi. Líklega áróður svo að maður drekki frekar te eða fræga Guinnessinn.

Restaurant ársins 2006:
Nú rauði drekinn auðvitað á Danziger!! Dásamlegur thai matur og skemmtilegir kallar sem urðu góðir vinir Arnars.

Ótrúlega merkilegt 2006:
Að fylgjast með Ísold þroskast og læra dag frá degi.

Dásamlega merkilegt 2006:
Litla Karólína sem kom í heiminn rétt fyrir jól, algerlega dásamleg.

Afrek mitt 2006:
Fæddi tvö börn á tveimur árum, maður gæti haldið að ég væri skipulögð.

Besti aupair ársins 2006:
Júlían litli bróðir minn( höfðinu hærri en ég), hefðum aldrei lifað af júnímánuð án hans. Ég með æluna á háu stigi og Arnar þurfti auðvitað að vinna fyrir okkur. En Júlían kom sá og sigraði, tók fyrstu kúkableyjuna um leið og hann kom af flugvellinum og ég er stolt af dugnaðinum hjá drengnum.

Besti matur ársins 2006:
Allur sá matur sem móðir mín snertir verður að guðaveigum....hún er dásamlegur kokkur, verður ekki af henni skafið.

Besta plata ársins 2006:
Belle og Sebastian, Adam Green, Beth Orton...þeirra nýju plötur eru mér efst í huga.

Bestu tónleikar ársins 2006:
Adam Green sem ég fór ein á. Posies með Arnari, Jussa og Maju. Jamm og svo sykurmolatónleikarnir. Allir einstakir á sinn einstaka hátt.

Besta bók ársins 2006:
Hef lesið óvenjulítið undanfarið ár, eiginlega til skammar. En ég var mjög hrifin af Yosoy eftir Guðrúnu Evu, Loftskipi eftir Óskar Árna og ævisögu Anais Nin.

Besta málverk ársins 2006:
Málverkið sem Maggi (Magnús Helgason) málaði á vegginn fyrir okkur í Ísoldar herbergi.

Já og svo ég taki smá óskar á þetta þá vil ég þakka fjölskyldu og vinum sem tóku svo vel á móti okkur þegar við fluttum heim, mömmu sérstaklega fyrir að hýsa á stundum viðskotaílla ólétta konu og familí í eina þrjá mánuði.
já svona var það.

sunnudagur, 14. janúar 2007

sister of siam

Ef þið viljið skoða myndir af öðrum en mér kíkið á flickr síðuna búin að fylla á hana. En þessi sjálfskoðun hefur leitt í ljós ýmislegt. Finnst nefið á mér alla vega skuggalega líkt nefinu á demantadorrit;)

miðvikudagur, 10. janúar 2007

appelsínafvötnun, fiskidagur, áll og vísitölulíf

fiskur er í ofninum sem er rúmlega tvöfalt eldri en ég(þ.e. ofninn ekki fiskurinn) miðvikudagur á að vera fiskidagur. Ég hef ekki drukkið appelsín í þrjá heila daga. Vísitölulífið tekur aðeins meiri tíma en hitt, fleiri þvottavélar og meira fjör. Spurning um annál, skyldi orðið vera myndað úr orðinu annum (latínu, þýðir ár) og áll (sem bítur í halann á sjálfum sér) væri það ekki logískt í það minnsta. Kannski birti ég einn slíkann á næstu dögum, hilsen

þriðjudagur, 2. janúar 2007

Ísold tveggja ára

Ísold á afmæli í dag, var sungið til að vekja skinnið í morgunsárið. Síðan fór hún í kjól og með pabba í leikskólann. Þar fékk hún kórónu sem henni þótti mjög sniðug. Skemmtilegast fannst henni að láta syngja fyrir sig því í bílnum á leiðinni heim bað hún mig að syngja "ísodd afmæli ída" og svo blandaði hún fleiri lögum með svo að úr varð stórskemmtileg lagasyrpa.
Svo margt hefur gerst síðan Ísold var svona lítil eins og systir hennar að mér finnst það hreint ótrúlegt. Það er auðvitað dásamlegt að fylgjast með henni dafna vel í öllum þessum breytingum okkar. Nú síðast fyrir tveimur vikum eignaðist Ísold litla systur sem hún hefur tekið ofsalega vel okkur finnst það einstakt hversu góð hún er við litla barnið sem óneitanlega tekur smá af athyglinni sem hún átti vísa hingað til.
Á fyrstu myndinni er hún nokkura daga, næsta mynd er tekin í eins árs afmælinu sem haldið var hjá ömmu Rós fyrir ári síðan og sú seinasta var tekin á aðfangadag síðastliðinn