fimmtudagur, 30. nóvember 2006

heilasull

Síðasta kennslustund þessarar annar var í dag, reyndar hef ég lítið getað mætt undanfarið vegna mikillrar ófrísku. En í dag mætti ég þar sem ég átti að taka þátt í fyrirlestri, svona ykkur að segja var framlag mitt ekki beysið. Ég sat á hliðarvængnum með bumbu út í loftið að upphugsa aðferðir til þess að lauma inn aulabröndurunum sem er það eina vitsmunalega sem heilinn minn gat kokkað upp í dag!!
En tími dagsins var sögulegur fyrir það að vera einn sá leiðinlegasti sem ég hef upplifað síðan ég hóf skólagöngu. Staðreyndin er sú að það er hreinlega ekki hægt að kenna á tölvur eða forrit í fyrirlestraformi, að þurfa að hlusta á- og svo ýtir maður á shift og enter er tilgangslaust. Ekki gerir það ástandið betra þegar manni líður eins og heilinn á sér sé kominn í vetrardvala og ég farin að hreyfa mig eins og smávaxinn flóðhestur. Eftir tímann sem drógst á langinn fékk ég minn ektamann til að skutlast eftir mér og sagði honum skýrt og skilmerkilega að ég væri í Odda, síðan lét hann mig vita hvenær ég gæti ruggað mér af stað út að hitta hann sem ég og gerði en sá engan Arnar. Hann spurði aftur hvar ég væri og ég sagði NÚ Í ODDA (með skemmtilegu hormónapirrröddinni) og stóð þá fyrir utan Lögberg....sem sagt heilinn minn virkar engan veginn sem skyldi. Nú þarf ég að klára ritgerðir og verkefni, spurning hvort ég geti fengið aðgang að utanáliggjandi heila:)

sunnudagur, 26. nóvember 2006

laugardagur, 25. nóvember 2006

pönkfamilí

You Are "Tearful"

Já við erum soldið lúin fjölskyldan þessa daganna, ég orðin kas, Arnar á pensilíni og Ísold leiddist þessir aumu foreldrar sínir. Reyndar byrjaði helgin bara vel, við kíktum á tónleika Benna hemm hemm í tólf tónum í gær því ungviðið þarf að venjast lífstílnum. Nú svo í morgun var skemmtilegt morgunkaffi hér í mýrinni með mágkonu minni og familí. Það ótrúlega gerðist að mér tókst að versla nokkrar jólagjafir(vonandi næ ég fleirum fyrir útgáfudag) en takmarkið í ár er að taka sem minnst þátt í eyðslukapplaupinu.

fimmtudagur, 23. nóvember 2006

próf

maður er endalaust að taka próf í skólum, vinnum, þolraunum og síðast en ekki síst samskiptum við fólk. Þá hjálpar að geta hlegið að la bourgoisie og horft framhjá smánunasemi og leiðindum annara.
Annars er minnisleysi mitt komið á mjög hátt stig og gruna ég blessuð hormónin, í dag leitaði ég að kennslustofunni minni í nokkrar mín á 3 hæð í árnagarði en hún er á fjórðu, síðan varði ég öllum tímanum að reyna muna föðurnafn fyrrum kennara míns sem er mjög þekkt persóna.
hér kemur prófið mitt í dag:
You Have A Type B Personality

You're as laid back as they come...
Your baseline mood is calm and level headed
Creativity and philosophy tend to be your forte

Like a natural sedative, you have a soothing effect on people
Friends and family often turn to you first with their problems
You have the personality to be a spiritual or psychological guru

þriðjudagur, 21. nóvember 2006

setti inn fáeinar myndir af gullmolanum á Flickrið , Ísold hefur það bara gott hérna á nýja heimilinu okkar í norðurmýrinni. Hér á hún stórt herbergi og sefur í stórubarnarúmi. Hún hefur lært heilmikið undafarna mánuði síðan hún byrjaði á leikskólanum, mest áberandi er kannski orðaforðinn en hún er líka orðin ansi dugleg að leika sér við dótið sitt og farin að dunda sér mikið. Þessa daganna er hún mikil pabbastelpa og finnst mjög gaman að láta lesa fyrir sig. Henni finnst Depill, Emmubækurnar og Einar Áskell sérstaklega skemmtilegar, þær má lesa aftur og aftur. Einnig lesum við oft um litla fílsungan hana Bellu sem eignast litla systur... við erum ekki alveg með á hreinu hvort hún geri sér grein fyrir að hún sé sjálf að verða stóra systir þó hún viti að það sé barn í maganum mínum.

sunnudagur, 19. nóvember 2006

það er eitthvað mjög dásamlegt við þennan brjálaða snjó sem kyngdi niður í nótt. Familían kíkti aðeins út í snjóinn í dag og fannst mér ómótstæðilegt að sjá litla skinnið okkar í risarauða gallanum sínum klofa snjóinn(smelli inn myndum á næstunni).
Á föstudaginn fórum við á crazy tónleika sem ég hefði ekki viljað missa af fyrir heiminn. Meðferðis var ég með púða til að hvíla lúin bein á en þegar molarnir byrjuðu gat ég sko ekki setið kjurr, þau voru bara svo skemmtileg.
Annars er spennan á heimilinu farin að magnast því nú er þetta spurning um nokkrar vikur, og ég er ekki að tala um jólin.

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Á íslensku

deginum gerðist svo sem ekkert markvert. Talaði íslensku og komst að því að sjálft afmælisbarnið hann Jónas var alveg ruglaður í því hvar ætti að setja ufsilon og hvar ekki, Konráð Gíslason átti víst þátt í þessari meinloku hans.
Á íslensku sagði nýji veðurfræðingur sjónvarpsins okkur í gær að framundan væri norðanátt og frosthörkur. Hann verður að endurhugsa þessa innkomu sína á ljósvakann því hann getur ekki aflað sér vinsælda með svona spám, sérstaklega þegar þær rætast. Já hvernig væri að fá hressan veðurfræðing, ég er á því að maður þurfi ekki að vera langt kominn í veðurfræði til þess að geta sagt þjóðinni veðurspár þannig að einhver skemmtun sé að (því ekki er mikil skemmtun í sjálfu veðrinu). Á íslensku segi ég það er andskoti kalt, afsakið orðbragðið.

þriðjudagur, 14. nóvember 2006

tæknileg mistök

Ekki finnst mér mikil réttlæting í því að nefna glæpi TÆKNILEG MISTÖK hvort sem það er fjöldamorð á saklausu fólki og litlum börnum eða stuldur úr sjóðum almennings til að innrétta húsið sitt. En af síðasta fréttatíma má sjá að Árni Johnsen og Ísraelsk yfirvöld eiga margt sameiginlegt. Mér varð reyndar enn meira óglatt við að sjá sendiherra Ísraels sem bað fólk um að fordæma þá sem þeir eru að murka lífið úr...


Annars hef ég ákveðið að setja 25 ára samband mitt við sjónvarpið á smá hold(ætla samt að horfa á fréttir og þáttinn hans Jónasar Sen, og nei ég er ekki orðin áttræð;). Mér finnst ég ekki lengur vera fá neitt mjög mikið út úr þessu glápi. Eftir að ákvörðunin var tekin finnst mér eins og ég hafi losað mig við einhvern lúsablesa og ég sé frjálsari en ella. Þetta þýðir auðvitað að ég mun (hum hum vonandi) klára öll verkefnin í skólanum, klára jólaundirbúning og ýmislegt annað áður en barnið kemur í heiminn (svo næ ég að blogga um mínar óviðjafnanlegu skoðanir ykkur til skemmtunar í enn meiri mæli!). Kvöldstund við að hlusta á útvarpið, lesa góða bók og fara snemma í háttinn hljómar ekki svo ílla? ekki satt.

mánudagur, 13. nóvember 2006

undarlegt

fréttablaðið birtir nafnlausa bókagagnrýni, er það ekki bara ruddaskapur eða er það gunguháttur?

sunnudagur, 12. nóvember 2006

í kvöld var okkur boðið af tengdamóður minni í perlulaga restaurant til að borða villibráð....ummmm. Ég hef sannfærst endanlega um það að hamingjuna er að finna í fjallakofa upp á hálendi, Arnar myndi veiða okkur til matar sem ég myndi krydda með blóðbergi. Eftir matinn myndi maður svo dýfa sér í einhverja heita laug í næsta nágrenni. Desertinn þyrftum við að láta senda eftir á þennan fyrrnefnda restaurant en þar er besta jarðaberjaís í heimi að finna, vill svo til að afi hennar Ísoldar býr hann til.
Nú er Moya Brennan/Clannad komin á fóninn og mér finnst eins og við séum að keyra um Donegal á Írlandi, ekki amalegt það.

laugardagur, 11. nóvember 2006


Dóttirin er í pössun, kærastinn í útvarpinu og ég er búin að einbeita mér að námi í kannski fulla þrjá tíma. Hef lesið nokkra kafla samsvarandi ritgerðarefninu mínu og skrifa ein 700 orð nema nú virðist einbeitingin gengin til þurðar. Estrógenið farið að segja til sín, hugur minn leitar til þvotts sem er óþveginn, gólfs sem er ósópað og barnaherbergi sem þarfnast smá tiltektar. Hvar er hægt að fá lyf við þessum estrógenósóma!!!

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

framtíðarveðurspár

í dag var ég einstaklega óhress svona líkamlega fannst bara að ef ég hreyfði mig um millimeter myndi barnið sleppa út ekki nóg með það þá virðist andleg heilsa mín ekkert þola svona álag neitt sérstaklega vel. Hins vegar virðist ég oft vera óhressari þegar lægð er aðvívandi hvað þá stormlægð...skyldi ég vera með lítinn veðurfræðing í maganum.
Það er öruglega mjög hentugt að eiga slíkan að, maður skipuleggur fríin sín betur eftir veðrinu og lendir ekkert upp á heiði í aftakaveðri. Nú svo ef Ísold gerist endurskoðandi verður efri árunum okkar borgið.

þriðjudagur, 7. nóvember 2006

Ólafsfjörðurinn

Nú er svolítið farið að draga af mér í þessu ástandi mínu, ég finn að ég er að dragast aftur úr í skólanum og mér óar við öllu því sem ég á eftir að gera í familíulífinu. Hvort ég sé búin að taka mér of mikið fyrir hendur svona á þessum síðustu mánuðum held ég nú ekki en ef krafturinn væri aðeins meiri þá væri þetta líklega auðveldara.
Hins vegar fórum við í dásamlegt ferðalag um helgina enda síðasti sjens á að flytja mig milli landshluta (ef hvalur 9 á ekki að koma við sögu það er).Við fórum til Ólafsfjarðar, dvöldum þar í húsi með þeim Tinnu, Eiríki og Vöku. Við komum þar að kvöldi til í gegnum ógnarlöng göng sem minntu á risaeðluháls. það var því ekki fyrr en daginn eftir sem við uppgötvuðum dásamlegan fjallahringinn sem umkringir þennan litla notalega og rótgrónna bæ. Þarna létum við dekra við okkur, fórum í fjallasund og höfðum það bara gott á afskaplega jólalegu heimili. Ísold naut sín vel þó henni væri ekkert vel við að heimiliskötturinn væri ekki uppstoppaður. Þessa daganna eru flest orðin hennar með ákveðnum greini og stundum líka í fleirtölu. Talar til dæmis um Pabbani, kakkani og fleira í þessum dúr.
Nú svo lærðist henni að frændi hennar hagaði sér stundum undarlega en við vorum viðstödd opnun á sýningu hans Curvers á Akureyri. lýsing Ísoldar á sýningunni var á þessa leið "bibbi lúlla góllinu".
Að komast heim frá Ólafsfirði reyndist svo þrautinni þyngri, í fyrsta lagi vorum við veðurteppt í heilan dag en síðan þegar við lögðum að stað fyrir sólarupprás í gærmorgun hafði vetrarkonungur lagt hvíta ábreiðu á bæinn og fjöllin sem gerði það að verkum að mann langaði ekkert til að fara. Við keyrðum því tregafull í gegnum ævintýralegt norðurlandið undir fullu tungli.