þriðjudagur, 29. nóvember 2005

af múmín og öðru húslegu

Sem sagt hann Jússí tjáði mér það um daginn að hann hefði hitt hana Tove Janson og konuna hennar, meira að segja farið heim til hennar verið með í fórum sínum frumteikningar af Múmínálfunum(hann er sko grafískur hönnuður), þetta þótti mér afskaplega merkilegt. Einnig sagði hann mér að fyrst þegar hann hitti hana var hann aðeins patti og hún var að árita bækur, aðeins farið að slá í hana en hún sat þarna víst í þröngum leðurjakka með risasólgleraugu og sígarettu í kjaftinum. Á Jússí æpti hún og bað hann að tala hærra því hún væri orðin svo gömul.
Af húslegum þönkum, við foreldrarnir fórum aftur með gríslinginn til læknis en þurftum að bíða lengi í þar til gerðu leikherbergi með helling af fínum þroskaleikföngum. Ísold fyrst feimin við börnin hélt í mig á meðan hún lék sér með einni hendi...en svo fór mín að skríða út um allt og reyna leika við hin börnin. Einn á að giska fjögura ára vildi nú ekkert láta trufla sig í kubbaleik og sló næstum til dótturinnar þegar hún ætlaði að taka af honum einn kubbinn, þá rumdi allt í einu í föðurnum svo hátt að allir á læknastofunni frusu og litu til okkar(þetta var magnþrungin mínúta á læknastofunni)Arnar gekk til dótturinnar og tók upp. Drengurinn mætti þungbrýnum Óðni sem ég varð að róa niður og móðir drengsins varð svo einnig að róa hann. Faðirinn kannski ekki of vanur þessum daglegum árekstrum í leik barna og sá því aðeins rautt þegar þegar einhver fór að abbast upp á augasteininn sinn.
mynd tileinkuð Sunnu...

mánudagur, 28. nóvember 2005

gefið ljóð og lýðið á

eins og færeyingar segja svo fallega(kann ekki færeyska stafsetningu). Annars hefur þessi mánudagur verið ágætishvíld eftir annasama eða Reykvíska helgi, partý, jólamarkaðsferð, matarboð, fundur og út að borða. En í gærkveldi fór ég á Antony and the johnsons tónleika í þjóðleikhúsi þeirra austurþjóðverja, tónleikarnir voru nokkuð magnaðir á fallegum stað og ófá tárin fengu að falla. Eftir tónleikana á leið heim ásamt Eddu, Jússí og Maju rákumst við á Mikka nokkurn Ref sem sést í augun á myndini....og svo er önnur mynd þar sem sést eitthvað í rebba þar sem hann húkir yfir mús sem berst fyrir lífi sínu, árangurslaust. Já stórborgarlífið
. Síðan lukum við þessu dásamlega kvöldi á því að ganga um Lúcíu jólamarkaðinn í Kulturbrauerei(gömul bruggverksmiðja þar sem nú er brugguð menning). Já jólaskapið er sko komið í mig og það er bara mjög jólalegt hér í Berlín, kannski hjálpar þessi fyrrnefndi jólamarkaður sem er hér í götunni, snjórinn( sem virðist reyndar ekki hafa þann eiginleika að festast á jörðinni) og ofsafalleg jólaljósin sem farin eru að skína alls staðar. kíkið á nýjar myndir!

föstudagur, 25. nóvember 2005

Það snjóar í Prenzlauer Berg

Og það snjóar enn og alltaf gleðst ég yfir litlu hlutunum. Ísold lærði að segja vá þegar við litum út um gluggann í morgun og báðar skríktum við.
Og hvað afrekuðum við svo í dag, við fórum til Artz(læknir) það var auðvitað lífsreynsla, þessi kort frá tryggingastofnun sem eiga auðvelda manni lífið þykja mér ekki auðvelda neitt. Allar upplýsingar á kortinu og leiðbeiningar skrifaðar á íslensku
og þeir kannast bara ekkert við þetta fyrirbæri. Well, komumst þó að því að hér er svaka velferðakerfi, allt ókeypis meira að segja lyfin. Hjá lækninum voru voða mörg börn og ekki furða miðað við fæðingartíðnina hér. Artzinn hjálpaði okkur heilmikið og ráðlagði en eitt þótti mér merkilegt en hann talaði um te sem vökva fyrir Ísold, en vegna pestarinnar missti hún mikinn vökva, litla skinnið mitt. Jæja við keyptum baby-te í biofrish markt.
Gleymdi einu, læknirinn er bæði venjulegur læknir og hómópat...sem er fremur algengt virðist vera hér...þeir eru svo natural þessir þjóðverjar.
Á Raumerstrasse er svo læknir sem heitir Isolde Gottschalk..... ætli Ísold verði gott skáld, verð nú að hlaupa því umrædd er komin í annað herbergi.

miðvikudagur, 23. nóvember 2005

listalistalistar

Pestin hefur eitthvað haldið áfram að herja á okkur og þá sérstaklega hana Ísold, ég var nú orðin voða hrædd um hana þangað til ljósmóðir mín á íslandi sagði mér að lítil kríli eru lengur að jafna sig á svona ælupestum. Það var voða gott að heyra í ljósmóðurinni þó ég hafi nú áorkað að panta tíma hjá lækni á þýsku. En ég hef undanfarið saknað töluvert þessarar öryggistilfinningar sem ég finn hvergi annars staðar en á skerinu norður í atlanshafinu. En okkur líður nú samt voða vel á heimilinu okkar, kannski kemur öryggistilfinningin með málinu.
En svona til að hressa upp á bloggið svara ég hér kitlinu hennar tinnu, þó pínu feimin ég sé við þetta....
here goes
7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1. ferðast um mongólíu, madagaskar og Írland.
2. ganga á esjuna, laugaveginn, arnarvatnsheiði, hornstrandir og keyra gæsavatnaleið.
3. lesa mest allt bókasafnið hans pabba.
4. eignast mína eigin sundlaug.
5. giftast með pomp og pragt.
6. eignast fleiri börn.
7. búa í færeyjum.

7 hlutir sem ég get gert:
1. hlegið endalaust.
2. gleymt mér og tímanum.
3. búið til gott mousaka og mousse au chocolat.
4. grátið úr mér augun.
5. lesið hratt.
6. sett saman húsgögn...úr íkea.
7. sett tunguna upp að nefbroddi(þá er maður skáld segir þjóðsagan).

7 hlutir sem ég get EKKI gert:
1. neitað mér um sætindi.
2. svarað nógu vel fyrir mig.
3. farið í brú eða hlaupið hratt.
4. borðað þorramat.
5. horft á Lost highway.
6. logið almennilega.
7. verið vandvirk.

7 hlutir sem heilla mig við hitt kynið:
1. Gáfumenni samt ekki í hrokafulla kantinum
2. einlægni
3. réttlætiskennd
4. húmor
5. Krullótt hár, skegg
6. gleraugu
7. göngulagið hans arnars...

7 frægir karlmenn sem heilla mig:
1. Arnar Eggert Thoroddsen
2. Will Oldham
3. Marc Ruffalo
4. Marc kozelek(Red house painters)
5. Marc Eitsel(American Music club)
6. Woody Allen
7. Noam Chomsky

7 orð sem ég segi oft:
1. "goddam"
2. merde
3. ó ó
4. magnað
5. crazy in love
6. gríslingur
7. litla skinn

7 manneskjur sem ég kitla:
1. tinna á
2. ilmur
3. edda
4. baldur
5. Rúna
6. Anna Katrín
7. Valdís

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Kölnarvatnið

Við sitjum hér uppí herbergi sem ég er farin að þekkja afar vel. Við teigum rándýrt ískalt vatn frá hótelbarnum náföl í framan. Pestin náði sem sagt í okkur öll, ég fékk hana í nótt og nú síðast Arnar með kvöldinu. Góðu fréttirnar eru þær að Ísold mín er búin að jafna sig og sefur nú vært. Í fyrramálið er svo lestin tekin heim, fréttir herma að þar sé veturinn kominn og meira að segja hafi snjóað!
Af Köln sá ég eitthvað, fór með góðum vini mínum honum Magga í göngutúr um verslunargötunar, sáum jólamarkað, borðuðum rándýra samloku á Peter Ustinov veitingastað og enduðum á því að skoða þessar ógnarlegu Dómkirkju sem er ein magnaðasta sem ég hef nokkurn tíman augum litið. Reyndar sáum við í dag þegar við fórum loks öll út úr hótelherberginu í leit að opnu apóteki(árángurslaust) að hér eru kirkjur gersamlega á hverju horni.
Fyrir áhugasama vini um líf okkar í germaníu þá setti ég inn myndir af íbúðinni okkar.
Þangað til næst...

laugardagur, 19. nóvember 2005

Friðþæging útgefandans, útgáfa II

Kannski er óviðurkvæmilegt að skrifa þetta hér en þar sem ég er nú er einmitt á menningarhátíð í Köln sem ég hef ekki tök á að sjá þá ætla ég að gefa "menningu" gaum. Var nefnilega að skoða lesbókina í dag, þar var grein um pabba. Já hvað skal segja, einhvern veginn langar mig helst til að hringja í pabba. Við myndum hlægja að þessu og með einni setningu myndi hann afgreiða þetta endemis þrugl. Aldrei var pabbi hrifinn af bókmenntafræðingum og alltaf skil ég betur og betur hvers vegna. Allt þykjast þeir vita, nægir ekki að tala um fjárans bókmenntirnar. Þessi anskotans póstmódernismi hefur gefið þeim skotleyfi á allt mögulegt allt frá nafngiftum á hárgreiðslustofur til göngulags fólks. ekki er ég að reyna fegra ímynd föður míns en pabbi hætti að reykja fílterslausar fyrir langalöngu og ekki var hann róni þó það þjóni kannski þessari mýtu betur. Þessi grein er óskiljanlegt rugl sem angar af hroka og jafnvel biturð, því þarna er hann ekki að lýsa pabba. Það er reyndar skiljanlegt að pabbi væri aldrei viðræðuhæfur við hann.
Er þetta kannski dulinn auglýsingatexti fyrir Hallgrím Helgason, hugsaði ég.

Eftir Jónas H.
Hvurs er að dyljast? harma sinna þungu,
hlægja þeir öld, er ræður þeim ei bót;
hvurs er að minnast? hins er hvurri tungu ---
huganum í svo festa megi rót ---
ætlanda væri eftir þeim að ræða,
sem orka mætti veikan lýð að fræða.

föstudagur, 18. nóvember 2005

'Eg sit hér í hótelherbergi í Köln, dóttir mín liggur í rúminu, veik. Það byrjaði smá vegis í nótt en í u-bahninum á leið á zoo stöðina byrjaði litli gullmolin okkar að kasta upp, þið getið ímyndað ykkur að það var ekki fögur sjón. Fjögurra tíma lestarferð til Kölnar varð síðan afar löng, litla skinnið okkar afar slappt og við litin hornauga af önugum frökkum. Þegar við loks lentum hér hentumst við í leigubíl, risastór mjög drungaleg dómkirkja(býst ég við) gerði okkur bylt við og komum við hingað á hótel Ibis.
Og hér erum við enn í mjög litlu hjónaherbergi en voða fínu, Aet fór að vinna en keypti netið í sólarhring þannig best er að nýta það. 'Eg var að enda við að þvo tvö pils, tvo boli og náttkjól(alklæðnað minn í Köln) með handsápunni vegna ástandsins. Herbergið lyktar ekkert sérlega vel eftir ósköpin sem gengið hafa á, við erum búin að fá annan skammt af handklæðum. Sem sagt ef við fáum aldrei aftur að gista á Ibis þá er það ekki vegna Depp/Moss rokklifnaðar þó útkoman á herberginu sé öruglega ekkert ósvipuð. En ég vona nú að Ísold mín jafni sig alla veganna virðist hún sofa vært.

miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Síðla dags á degi Íslenskunnar hlusta ég á færeyska tónlist, Jónas horfir á okkur hér í stofunni, myndina af Jónasi fékk ég frá pabba. Ég var í þýskutíma, kennarinn minn snotur kona á fertugsaldri sagði okkur að hún væri frá Leipzig. Það fyrsta sem ég hugsaði hvernig lífi skyldi hún hafa lifað í DDR....og hún las einmitt hugsanir mínar og sagði, Bitte frage um DDR eg get sagt ykkur allt. Þá að sjálfsögðu hrönnuðust upp spurningarnar og ég kom engri út úr mér en eitt sagði hún okkur. Þau fengu bara banana og appelsínur á jólunum og appelsínurnar voru grænar. Síðan tókst mér að komast undan
ágjörnu kínversku stelpunni og Marco frá Mílanó, fór því bara ein í minn U-bahn sat við hliðina á illa lyktandi litlum beygluðum manni ég fór sjálfsögðu að hugsa um hvort hann hefði fengið grænar appelsínur eða appelsínugular.

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Ég mun aldrei gleyma því þegar litlu frændsystkini mín voru að kenna mér að segja Maó á kínversku, (mááá ef mig minnir rétt) eða í þau ófáu skipti sem þau kitluðu mig þangað til mér fannst ég ekki ná andanum. Svo mun ég aldrei gleyma því þegar ég skildi litlu frænku mína eina eftir í kvennaklefa kópavogslaugar(hvað þá fyrigefið mér það). Nú er þessi umrædda frænka mín búin að eignast litla yndislega stelpu sem ég get ekki hætt að skoða myndirnar af.
En nú verð ég að þjóta í klippingu sem hún mamma var svo góð að gefa mér fyrir, tjúss.

mánudagur, 14. nóvember 2005


þýskur raunveruleiki;
Við mæðgur sitjum nú við eldhúsborðið og maulum piparkökur sem keyptar voru í bíómarkaðnum. 'Eg er ekki frá að komið sé smá jólaskap í okkur. 'I dag fóru mamma og Júlían það var eins og við manninn mælt en ég varð pínu leið og mædd fannst allt í einu voða tómlegt og kalt í stóru borginni.

sunnudagur, 13. nóvember 2005

Sunnudagarnir hér í Pberg þykja mér bara nokkuð ljúfir, kannski af því enginn mánudagskvíði hangir yfir mér. allt er rólegra án þess að vera ömurlegra, búðir eru lokaðar og maður finnur virkilega að allir eru í fríi. Berlínarbúar fara í brunch á kaffihúsum og taka því rólega...við Arnar og 'Isold ásamt gestum strolluðum niður á bar Gagarín(rússneskur brunch ummmm) og viti menn við sátum úti. Já þetta veður er fremur tíðindalítið hér. Nú svo var farið á Mauermarkt, markaður á svæði sem var einu sinni svokallað dauðasvæði milli austurs og vesturs. Þar keypti mamma mín handa okkur stórann spegil, dúk og fleira í litla hreiðrið okkar. 'I gær var þvílíkt matarboð, tvær stórfjölskyldur mættar með tilheyrandi látum, nautasteikur á liðið og fólk bara kátt.
En annars kæru vinir þá komum við til íslands um miðjan des, staðreyndin er að ég hlakka geðveikt til að berja augum þetta sker og litlu snjóbúanna mína.

fimmtudagur, 10. nóvember 2005


'Isold hressa eftir matinn! er hún ekki orðin stór?

setti inn halloween myndir, jeijjjjj.

miðvikudagur, 9. nóvember 2005

afmæli afmæli

afmæli er eitt yndislegasta fyrirbæri sem ég veit um. Í dag voru slík hátíðarhöld hér, byrjað var á pönnukökubakstri og borað í veggi. Litli bróðir minn sem er hálfu höfði hærri en ég, hjálpaði til við að leggja lokahönd á heimilið. Klóssetpappírshaldari, hankar allt fest upp í undarlega fratveggi. Svo fórum við litla stórfjölskyldan, Mamma og Júlían eru s.s í heimsókn. Við gengum borgina endilanga(eða eins mikið og hægt er á 6 klukkutímum) sáum unter den linden,borðuðum currywurst á hlaupum, fórum á klóssetið í humboldtháskólanum, brandenborgartor, fengum að fara framfyrir í Reichstag vegna barnavagns, enduðum svo á súrealísku Potsdamer platz(held ég hafi séð skíðabrekku,Hum!). Dagurinn síðan fullkomnaður á besta ítalska veitingastað þýskalands(svo segir í lonely planet, ekki ljúga þeir)..hljómar ótrúlega, en þessi veitingastaður sem er við okkar götu er líklega besti ítalski veitingastaður sem ég hef farið á(magnað hvað ítalskur matur getur verið góður). Lítill, troðfullur af fólki, innréttingar hefðbundnar ekkert sérstakar(að sjálfsögðu köflóttir dúkar), maturinn himneskur,vínið guðdómlegt, desertinn hreint yndi. Þjóninn talaði ítölsku/frönsku/þýsku við okkur allt í bland, va bene...ó já va bene! Nú skálum við í alvöru kampavíni fyrir afmælum og fæðingum....

mánudagur, 7. nóvember 2005

Segið svo að maður sé ekki "colorcoordinated"

föstudagur, 4. nóvember 2005

nokkrar nýlegar myndir úr the city of luv........ merktar Berlín.
Kíkið á þetta krakkar, þarna er ein mynd sérstaklega tileinkuð þeim Þuru og Sólu, Ein mjög skemmtileg móumynd, og ein misheppnuð mynd. Misheppnaðar myndir eða myndir þar sem maður myndast alls ekki vel eru áhugamál mitt því photosjoppaður heimur þykir mér lítið áhugaverður.

fimmtudagur, 3. nóvember 2005

ei

Hér sit ég eins og þjófur að nóttu. Við foreldrarnir erum með program, barnið á að venja af öllu dekri að nóttu til. Brjóstin framleiða enn fyrir nokkrar þriðja heims fjölskyldur og ég er að spá hvort ég geti sent afurðina eitthvert til þurfandi. Móðurhlutverkið virðist taka að minnsta kosti hrikalega á samviskutaugar mínar og ég er ekki einu sinni alin upp í lúthersku heldur í bullandi kaþólsku samviskuleysi.
Annars finnst mér glitta í vetrarkonung hér Prenslauer Berg, trén orðin vandræðalega ber og einhver grámi hefur færst yfir. Nú er ég viss um að okkur verði refsað þessi gósentíð og á von á síberíufrostinu(enn hugsa ég á lúthersku). Mikið öfunda ég ykkur af snjónum, mig gjörsamlega verkjar af heimþrá þegar ég hugsa um snjó. Í gærkveldi brá ég mér út af Danziger og fór í skólann, förinn sem slík mishepnaðist hræðilega. Fyrst gleymdi ég heimilisfanginu,hljóp til baka. Síðan gleymdi ég að stimpla miðann, hver kemur nema eftirlitið og rekur mig úr lestinni til að stimpla hann. Þá bíð ég í 5 mín eftir næstu lest og er þá strax orðin korteri of sein. Loks kemst ég á Ernst reuter platz geng upp úr metróinu/ubaninu í svarta myrkur, er ekki með gleraugun--hvar er fjárans Franklinerstrasse herbergi 1063. Þá birtist mér íslendingur sem ég vil nú kalla minn akademíska verndarengil því hann beindi mér á rétta braut, og varð ég ekki svo sein eftir allt saman.
Og hvað lærði ég well, basic "Ich heisse, Ich komme aus" þið vitið helling af málfræði sem var fínt og mér fannst ég græða á þessu. Eitt þótti mér asnalegt hvers vegna geta þau ekki haft accusativ á eftir nominativ eins og flest fallbeygjandi tungumál(sem ég kannast við a.m.k). ´
Á leiðinni til baka sagði rauðhærður bekkjarfélagi minn hann Marco frá Milano mér óþægilega mikið frá sjálfum sér eins og það að hann er með mjög slæma húð í Milano vegna mengunar, og að amma hans kostar hans viðskiptafræðinám hún er líka hálfklikkuð sagði hann, ekki þótti mér það fallega sagt. Hann var sem sagt mjög málglaður,hrósaði mér fyrir klæðaburð og spurði hvort ég væri gift sem mér þótti bara asnalegt. Kannski finnst mér köldu þjóðverjarnir bara mjög fínir eftir allt saman.